Aðalfundur Hjálparstarfs kirkjunnar 2018

help_aðalfundur_gestir2018Aðalfundur Hjálparstarfa kirkjunnar var laugardag 29. september í Grensáskirkju. Fundinn sitja fulltrúar frá prófastsdæmunum og sóknum. Gestir fundarins voru ungir félagsráðgjafar frá Úganda sem heita Talemwa Lubega Douglas og Samari Nakkazi Gertrude. Þau munu fara vítt um landið og ræða við börn í fermingarfræðslu og segja þeim frá aðstæðum heima fyrir í tengslum við ferminarbarnasöfnunina.

Ársskýrsla Hjálparstarfsins á Pdf-formi

Fundargerð aðalfundar 29. september 2018

Helgistund

Aðalfundur Hjálparstarfs kirkjunnar í safnaðarheimili Grensáskirkju hófst kl. 10:30 með helgistund í umsjón Jónasar Þóris Þórissonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar. Jónas Þórir lagði út af 3. kafla í Opinberunarbók Jóhannesar um að ljúka upp dyrunum fyrir drottni og sýna kærleika í verki: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans.“ Markús og Birkir Bjarnasynir fluttu frumsamið lag að lokinni hugvekju áður en fulltrúar færðu sig yfir í safnaðarheimili til fundarhalds.

Setning aðalfundar og stjórnarstörf

Gunnar Sigurðsson, formaður framkvæmdastjórnar, setti fundinn. Gunnar þakkaði Jónasi Þóri fyrir kröftuga hugvekju og Grensáskirkju fyrir að hýsa fundinn. Gunnar lýsti í framhjáhlaupi áhyggjum sínum af því að unglingar á Íslandi þekktu ekki dæmissögur úr Biblíunni eins og þá um miskunnsama Samverjann en kynnti því næst skýrslu stjórnar en á aðalfundi 2017 var Gunnar kjörinn formaður, Salóme Huld Garðarsdóttir kjörin ritari framkvæmdastjórnar og Vigdís Pálsdóttir sem varamaður í stjórn.

Á starfsárinu fundaði framkvæmdastjórn í sex skipti. Stjórnin nýtti nokkurn tíma í að rýna í skýrslur sænska ráðgjafafyrirtækisins NIRAS Indevelop um verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu og Úganda en niðurstöður þeirra voru jákvæðar. Í kjölfar skýrslnanna samþykkti utanríkisráðuneytið styrkbeiðni fyrir ný verkefni í Eþíópíu og áframhaldandi verkefni í Rakaí og Lyantonde í Úganda.

Gunnar sagði frá því að þjónustufyrirtækið Miðlun/Takk mætti á fund stjórnar til að kynna Hjálparliðann, styrktarmannakerfi sem Miðlun/Takk heldur utan um fyrir Hjálparstarf kirkjunnar en 1648 Hjálparliðar styrktu starfið með 35 milljóna króna framlagi í september 2018.

Stjórnin fjallaði einnig um ný persónuverndarlög og um áhrif þeirra á starfið.

Gunnar sagði frá að nú væru komnir gestir frá Úganda til að fræða börn í fermingarfræðslu um verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar þar. Gunnar hvatti fulltrúa til að minna prest í heimasókn á að panta heimsókn áður en börnin halda af stað með söfnunarbauk Hjálparstarfs kirkjunnar í hönd og safna fyrir vatnsverkefnum í Afríku vikuna 29.10. – 2.11.2018. Gunnar hvatti fulltrúa einnig til að tala máli Hjálparstarfs kirkjunnar og þakkaði starfsfólki unnin störf.

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Guðlaugur Gunnarsson var skipaður fundarstjóri og Kristín Ólafsdóttir ritari. Guðlaugur las upp fundarmenn (sjá þátttökulista).

Starfsskýrsla 2017 – 2018

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri kynnti skýrsluna. Hann lagði áherslu á að í öllu starfinu væri hjálp til sjálfshjálpar aðalmarkmiðið þannig að hjálparstarf yrði að endingu óþarft. Sædís Arnardóttir félagsráðgjafi tók þátt í kynningunni og sagði frá heimsókn til Kampala um vor 2018. Markmið með þátttöku hennar var að skiptast á upplýsingum við félagsráðgjafa UYDEL, samstarfsaðila á vettvangi, um aðferð í starfi.

Sædís sagði einnig frá verkefni sem lauk á starfsárinu í þágu kvenna sem búa við örorku og eiga börn sem nálgast lögræðisaldur. Í kjölfar verkefnisins hafa sumar kvennanna gjörbreyttu lífi sínu og allar höfðu þær myndað sterk tengsl sín á milli. Sædís sagði frá nýju tveggja ára verefni fyrir 17 konur sem hittast einu sinni í viku en til þess fékkst styrkur frá velferðarráðuneytinu. Sædís sagði frá töskuverkefni og aukinni ásókn í ráðgjöf sérstaklega af hálfu fólks sem er nýkomið til landsins, sumt ólesandi og óskrifandi.

Um annað vísast í starfsskýrslu á vefsíðu Hjálparstarfs kirkjunnar.

Fyrirspurnir og umræður

Spurt var um Breiðholtsbrúna og afdrif hennar. Sædís sagði frá því að hún yrði opin í vetur og að það verkefni hæfist mánudaginn 1. október.

Spurt var hvort það væri ekki skylda stjórnvalda að aðstoða innflytjendur og hvort Hjálparstarf kirkjunnar ætti ekki að gegna málsvarahlutverki þar að lútandi. Sædís játti því og sagði frá fundum framkvæmdastjóra og félagsráðgjafa með ráðherrum dóms- og velferðarmála þar um. Hún útskýrði að félagsráðgjafar Hjálparstarfs kirkjunnar nytu trausts fólksins sem veigraði sér við að leita stuðnings stjórnvalda. Bjarni minnti á að Rauði krossinn gegndi hlutverki gagnvart hælisleitendum og flóttafólki en að Hjálparstarf kirkjunnar sinnti fólki sem væri á milli kerfa. Í samræðum við ráðherra hafa fulltrúar Hjálparstarfs kirkjunnar minnt á mikilvægi frjálsra félagasamtaka í aðstoð við vegalaust fólk sem er nýkomið til landsins ekki síst börn.

Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar

Reikningar voru samþykktir samhljóða.

Starfs – og fjárhagsáætlun 2018 – 2019

Bjarni Gíslason kynnti starfs- og fjárhagsáætlun starfsársins sem nú er hafið.

Fyrirspurnir og umræður

Fulltrúi sagði sína heimasókn kaupa Friðarkerti í nokkru magni til að eiga fyrir jól og hvatti aðra fulltrúa til að leggja það sama til við sínar sóknarnefndir.

Stjórnarkjör og kosning félagskjörinna skoðunarmanna

Stjórn gaf kost á sér áfram og var sjálfkjörin til áframhaldandi setu. Í framkvæmdastjórn Hjálparstarfs kirkjunnar starfsárið 2018 – 2019 eru: Gunnar Sigurðsson, formaður, Páll Kr. Pálsson og Salóme Huld Garðarsdóttir. Varamenn í stjórn eru Hörður Jóhannesson og Vigdís Valgerður Pálsdóttir.

Skoðunarmenn reikninga gáfu kost á sér áfram og voru kjörnir, þeir eru Halldór Kristinn Pedersen og Margrét Albertsdóttir.

Gestir frá Úganda kynntir

Ungu félagsráðgjafarnir og gestir okkar frá Úganda heita Talemwa Lubega Douglas og Samari Nakkazi Gertrude. Þau munu fara vítt um landið og ræða við börn í fermingarfræðslu og segja þeim frá aðstæðum heima fyrir. Þau halda aftur heim á leið þann 28. október 2018 eftir fimm vikna dvöl hér á landi. Douglas og Trudy kynntu sig fyrir fulltrúum.

Hádegishlé

Mismunandi trúarhópar í íslensku samfélagi – Bjarni Randver Sigurvinsson, trúarbragða- og guðfræðingur

bjarni_randverBjarni Randver gerði í yfirliti grein fyrir Íslam og fjallaði um mismunandi stefnur og trúarhópa innan þessara fjölbreyttu trúarbragða. Hann rakti sögu Múslima á Íslandi og ræddi stuttlega um hreyfingar gegn þeim og um fordóma byggða á þekkingarskorti.

Bjarni Randver taldi að við gætum byggt brýr á milli menningarheima fyrst og fremst með menntun, málefnalegri umræðu og félagstengslum. Bjarni Randver sagði samræður og samvinnu forystufólks í trúfélögum (skoðanaleiðtoga) mjög mikilvægar við brúarsmíðina. Aðlögun Múslima að íslensku samfélagið sagði Bjarni Randver flókið mál því að á Íslandi væri fyrir fjölbreytt samfélag.

Bjarni Randver sagði að ekki væru allir Múslimar sammála um sharíalög og að þau væri hægt að túlka á ólíka vegu eftir því hvaða stefnu fólk aðhylltist. Hann sagði að langoftast hefðu Múslimar þann háttinn á í ágreiningsmálum að sharíalög vikju fyrir landslögum.  Bjarni Randver lagði áherslu á að í öllum trúarbrögðum væri skali umburðarlyndis, ekki bara í Íslam.

Fyrirspurnir og umræður

Fulltrúi spurði um skilgreiningu á trúfélögum og lífsskoðanafélögum. Bjarni Randver svaraði því til að lífsskoðanafélög hefðu sama lagalega rétt og trúfélög og að lífsskoðanafélög hefðu frelsi til að skilgreina sig sem slík.

Fulltrúi spurði hvernig staðið væri að trúarbragðafræðslu í íslensku samfélagi nú og hvernig fræðsla gæti nýst við að byggja brýr milli fólks. Bjarni Randver taldi almenna fræðslu um trúarbrögð í molum hér á landi. Sem dæmi væri trúarbragðafræði kennt sem valfag í framhaldsskólum. Hann lagði áherslu á að fræðsla yrði að vera hlutlæg.

Bjarni Randver sagði lykilatriði að við áttuðum okkur á á að trúfélög innan Íslam væru ekki einsleit. Að ekki væri hægt að alhæfa um Múslima vegna þessarar gífurlegu fjölbreytni og að ISIS væri ekki fulltrúa Íslam. Hann sagði lykilatriði að rækja tengsl með ýmsum hætti og að við tækjum upp hanskann fyrir Múslima svo þeir færu að treysta okkur. Að sama skapi að tala af yfirvegum, hlutlægni og virðingu þegar okkur þykir afstaða og framganga Múslima gagnrýniverðar. „Það skiptir máli hvernig við tölum við og um hvert annað,“ sagði hann.

Fulltrúi spurði út í rit um Íslam og varaði Bjarni Randver við því að ekki væri allt sem skrifað er byggt á hlutlegum grunni.

Fulltrúi spurð hvernig bregðast mætti við þekkingarskorti íslenskra unglinga á kristinni trú í fjölmenningarsamfélagi þar sem Múslimar hefðu kerfi á til að fræða unga fólkið um Íslam.

Bjarni Randver svaraði því fyrst til að íslensku samfélagi væri neikvæðni í garð Múslima gríðarleg, að 40% hefðu lýst sig andsnúna því að hér yrði byggð moska þótt moskur hafi verið til í samfélaginu í mörg ár. Hann nefndi einnig að samkvæmt skoðanakönnun vild fólk ekki Múslima sem nágranna. Bjarni Randver taldi að afstöðu þessa megi rekja til ótta grundvallaðan á þekkingarleysi og oft byggða á andíslamískum áróðri.

Um stöðu kristindómsins sagði hann marga samverkandi þætti hafa áhrif þar á. Nefndi hann tengslarof milli kynslóða, og innan fjölskyldna jafnvel, þar sem hver sýslaði í sínu horni. Hann taldi ýmislegt vanrækt í menntakerfinu þannig að nú hefði myndast menningarlegt ólæsi og minningarleysi. Þegar unga kynslóðin hefði ekki tengsl við menningararfinn og skildi ekki víddir og dýpt í samfélaginu væru hún móttækilegri fyrir andtrúarlegum málflutningi. Þá nefndi Bjarni Randver að ótal vandamál innan kirkjunnar tengd valdaátökum, fjármálum og kynhvöt hefðu stórskaðað ímynd og trúverðugleika kristindómsins í heiminum almennt og hér heima líka.

Bjarni Randver nefndi að eftir því sem félagslegt taumhald skipulagðra trúarbragða væri meira og ólíkara víðtæku gildismati í samfélaginu drægi meira úr trúverðugleika. Nefndi hann í því samhengi að yngri kynslóðir á Íslandi sýndu meiri skilning á ýmsu varðandi kynhvötina, til dæmis á samkynhneigð, og væru tortryggnar í garð stofnana sem þær  teldu standa fyrir viðhorf sem væru á skjön við sín eigin.

Fulltrúi sagðist eiga erfitt með að sætta sig við að Íslam nyti jafnræðis á Ísland þar sem réttindi kvenna væru mun skertari en í íslensku samfélagi almennt og að konum væri gert að hlíta boðum og bönnum sem hefðu síðast viðgengist í kristnum samfélögum fyrir sex hundruð árum.

Bjarni Randver sagði marga texta í kóraninum notaða til að kúga konur og sníða þeim þröngan stakk. Taldi hann nauðsynlegt að ræða um það á hlutlægan hátt á grundvelli mannréttinda. Bjarni Randver sagði mikilvægt að draga fram að Íslam væri ekki einsleitt og að mismunur væri milli hreyfinga hvað varðaði réttindi kvenna. Hann nefndi að staða kvenna væri miklum mun betri í Marokkó en í Íran til dæmis og að sterkar kvenréttindahreyfingar í Sádí Arabíu nú væru grundvallaðar á kóraninum.

Loks tók Bjarni Randver fram að ekkert væri skrifað gegn samkynhneigð í kóraninum heldur bara í haddíðum. Hann sagði að það hefði ekki alltaf verið þannig að samkynhneigðir hefðu verið ofsóttir í Íslam.

Fulltrúar lýstu áhuga á að fræðast betur um Íslam og benti Bjarni Randver á ýmsar bækur og fræðirit. Kristín sendir kynningarglærur Bjarna Randvers til þeirra fulltrúa sem þess óska.

Önnur mál

Tillaga um breytingu á skipulagsskrá frá 24. september 2011 var samþykkt samhljóða. Ekki var um efnislega breytingu að ræða heldur var orðalag fært til nútímaorðræðu og ártal leiðrétt sem misritað var.

Bjarni þakkaði fulltrúum fyrir góðan fund og minnti fólk á að ræða við Áslaugu Arndal fulltrúa um ferðakostnað.

Dúfa S. Einarsdóttir þakkaði öðrum fulltrúum fyrir samstarfið og tilkynnti að hún væri að flytja í Kópavog og yrði því ekki með áfram.

Guðlaugur Gunnarsson fundarstjóri þakkaði kærlega fundinn og hvatti fulltrúa til að hlusta á orð Jónasar Þóris og hleypa Jesú Kristi inn fyrir.

Lagt var til að fundur fulltrúaráðs yrði haldinn fimmtudaginn 7. mars 2019 kl. 17- 20. 

Gunnar Sigurðsson formaður framkvæmdastjórnar sleit fundi klukkan 14:16.

Kristín Ólafsdóttir ritaði fundargerð