Séra Jón lærði Jónsson um sólirnar tvær

Hér er einn af sálmum séra Jóns Jónssonar í Möðrufelli með nútímastafsetningu úr Viku-daga sálmar og bænir (bls. 1, prentaðar 1853). Í þessum sálmi lítur hann til sköpunar Guðs sem þakkarefni eins og í athugasemdum sínum í ritinu Sá guðlega þenkjandi náttúrskoðara. En ekki er síðri „Sólin náðar sæla“. Góð íhugun að sumri.

Fyrsti flokkur 1ti sálmur í Viku-daga sálmar og bænir (bls. 1)

          Lag: Hvíld er þægust þjáðum

Lof þér, ljóssins faðir,
er ljósin tvö skapaðir,
náttúru bæði’ og náðar,
er næra á sinn hátt báðar;
gæsku geisla þessa,
gafst oss til að hressa,
og bestu heillum blessa.

Sól hin sjáanlega,
sínum allavega,
geislum frá sér fleygir,
fríð á hverjum degi;
öllu meir að mæla
magnar gleði’ indæla,
sólin náðar sæla.

Þessa sól vér sjáum,
í sannleiksorði, og fáum,
il og birtu blíða,
er burtu rýmir kvíða.
Þú ert, Jesú, þetta,
þú, Guðs ímynd rétta;
miskunn þinni’ oss metta.

Il þinn oss lát kanna,
og elsku kveikja sanna,
en birtu’ á brautu leiða,
er boðar farsæld greiða;
aldrei vér svo villumst,
í veröld né mann spillumst,
heldur þig aðhyllumst.

Í ljósi lát oss ganga,
lífsins veginn þangað,
hvar sól mun aldrei setjast,
né sál í dyggðum letjast.
Jesú, lífsins ljómi,
líknaðu’ oss í dómi,
þín lofgjörð hljómi.

          Jón Jónsson í Möðrufelli (1759-1846)