JESÚS ER VINUR OKKAR er yfirskrift sunnudagaskólaefnis komandi vetrar – kynning

Kynning á efni sunndagaskólans frá Skálholtsútgáfunni
Nýtt úthendi fyrir sunnudagaskólann, Jesúbókin mín með 32 myndskreyttum biblíusögum, er tilbúið og verður til afgreiðslu í Kirkjuhúsinu frá og með 22. ágúst, n.k. Hér fyrir neðan er forsíðumyndin. Þeir starfsmenn sem vilja skoða efnið geta snúið sér til Skálholtsútgáfunnar eða skrifstofu prófastsdæmsins og fá þá sent frekari kynningarefni. Bókin er 64 bls. að stærð, heft í kjöl, og eins og sjá má, fallega myndskreytt. Hún dugar fyrir allt árið. Skálholtsútgáfan gefur út.
Á baksíðu eru foreldrarnir ávarpaðir en þar segir:
„Þessi bók segir frá Jesú. Sögurnar um hann standa í Biblíunni.
Hér eru þær endursagðar fyrir börn.
Ein saga er tekin fyrir í sunnudagaskólanum á hverjum sunnudegi. Foreldrum gefst síðan tækifæri til að rifja upp söguna með börnum sínum þegar heim er komið. Hægt er að lesa í bókinni fyrir svefninn eða nota hana sem kveikju að umræðum.
Sögurnar um Jesú geta kallað fram vangaveltur um stóru spurningarnar
í lífinu. Þá er dýrmætt fyrir foreldra og börn að geta opnað hjarta sitt
og rætt saman í einlægni.“
Athugið að börnin fá límmiða í sunnudagaskólanum hvern sunnudag til að fullgera myndirnar í bókinni. Límmiðinn límist þar sem myndin er svart/hvít.
Efnisveitan efnisveita.kirkjan.is er flestum starfsmönnum vel kunnug. Hún er gagnabanki fræðslustarfs kirkjunnar, þar á meðal sunnudagaskólans.
María Gunnarsdóttir, guðfræðingur, hefur haft umsjón með efnisveitunni frá því í vor og sett saman efni næsta vetrar 2018 – 2019.
Sjá: http://efnisveita.kirkjan.is/sunnudagaskolinn-haust-2018/
Efnisveitan er «Hlaðborð» þar sem velja má það sem hentar hverjum sunnudagaskóla fyrir sig með tilliti til aldurs og stærðar o.s.frv. Upplýsingar um efnið er í hverri samveru og fylgiskjölum. Í hverri samveru er biblíusaga, leikrit, myndband, söngvar, föndur og ítarefni. Í öllum þessum liðum er val um ýmsa möguleika, veljið það sem rúmast innan ykkar sunnudagaskóla. Stutt kennslumyndbönd verða inní efninu, til þess að leiðbeina starfsfólki enn frekar og styðja við í gerð á glærum og ýmsu öðru. Þau verða einnig sett inná fb síðu Kirkjustarfsins og á facebook djáknar, prestar og guðfræðingar.
Athugið að í kynningarmyndböndum verður bæði kynning á efni vetrarins 2018 – 19 en einnig kynning á efnisveitunni sjálfri. Þar verður til dæmis fjallað um hvernig hægt er að nota biblíusögurnar og aðrar sögur og leikrit sem fylgja hverri samveru. Söngvar sem tilheyra hverri biblíusögu eru birtir en einnig ýmislegt ítarefni. Farið verður yfir notkun á leitartakkanum og fleira í þeim dúr.
Ef þið hafið spurningar varðandi efnisveitu, sendið fyrirspurn á efnisveita@kirkjan.is.V Starfsmenn sunndagaskólanna geta sótt um aðgang í sama netfangi.