Páskaræði sr. Svavars A. Jónssonar í Akureyrarkirkju

Gleðilega páskahátíð, kæru vinir!

Aldrei sé ég fegurri söfnuð í kirkju en þegar hann situr þar prúðbúinn með bjarta páskasól í nývöknuðum andlitum. Þannig var útsýnið úr prédikunarstól Akureyrarkirkju í morgun þegar ég flutti þessa ræðu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Páskar eru trúarhátíð kristinna manna með hinum sterka boðskap um fórnfýsi og sigur lífsins yfir dauðanum. Ekki taka allir eftir þessum fallega boðskap og sumir gefa reyndar afar lítið fyrir hann. Á mörgum bæjum telst einfaldlega ekki sérlega fínt að flagga trú. Hún þykir jafnvel hrein tímaskekkja í nútímasamfélagi og því eru öfl sem vilja draga úr vægi hennar og telja sig með því vera að gera mikið gagn. Þessum öflum hefur orðið nokkuð ágengt, en eiga þó langt í land með að takast það ætlunarverk sitt að afkristna þjóðina.“

Á þessum orðum hófst leiðari víðlesnasta dagblaðs þjóðarinnar nú fyrir páskana. Ýmislegt gæti bent til þess að höfundur þessara orða hafi á réttu að standa. Þau sem ámálga trú sína á opinberum vettvangi eru ekki líkleg til að afla sér velþóknunar þeirra afla, sem hæst hafa og virðast stundum stjórna umræðunni hér á landi. Sú umræða einkennist því miður gjarnan af beiskri andúð á skoðunum öndverðum manns eigin, áráttu til að draga fólk í dilka fastmótaðra staðalímynda og því að skipa skoðunum til tveggja meginöfga. Það getur verið ein ástæða þess að manneskja, sem missir út úr sér að hún sé kannski pínulítið trúuð, er umsvifalaust sett á bekk með bókstafstrúarmönnum sem hljóta að vera á móti þróunarkenningunni, svo eitthvað sé nefnt, sem einkenna á trúaðar manneskjur í íslenskri samtímaumræðu.

II

Þýska skáldkonan María Luise Kaschnitz orti ljóð um upprisuna. Það ber titilinn „Ekki hugrökk“ og er svona:

„Þau hugrökku vita
að þau rísa ekki upp
að holdið sprettur ekki upp
í kringum þau
á hinum efsta degi
að þau muna ekkert
hitta engan aftur
að þau eiga ekkert í vændum
enga sælu
enga þjáningu

ég
er ekki hugrökk“

María var hugrökk kona sem upplifði tvær heimstyrjaldir áður en hún dó árið 1974. Landi hennar, Marcel Reich-Ranicki, virtasti bókmenntagagnrýnandi þeirra tíma og stundum nefndur bókmenntapáfi Þýskalands, sagði um Maríu, að þótt hún yrki af miklu sjálfsöryggi geri hún það ávallt án þess að vera ánægð með sig.
Í ljóði Maríu um upprisuna, finnum við sjálfsöryggi en um leið heiðarlegan sjálfsskilning, hugrekki sem fólgið er í því að skáldið gengst við ótta sínum.
„Ég er ekki hugrökk,“ segir María. Mikið skil ég hana. Og mikið dáist ég að henni. Í starfi mínu hef ég kynnst mörgum trúarhetjum sem mætt hafa örlögum sínum af aðdáunarverðum hetjuskap og æðruleysi. Það fólk hefur kennt mér óendanlega mikið.
Ég hef líka kynnst óttaslegnu fólki, fólki sem hefur áhyggjur af eigin örlögum eða er hrætt um ástvina sína. Ég hef verið með fólki sem hefur orðið fyrir ólýsanlegum vonbrigðum, hefur brotnað gjörsamlega saman eftir að hafa fengið vondar fréttir og verið svo óhuggandi að ég hef ekki haft nein önnur úrræði en að gráta með því og horfa með því inn í myrkrið og ofan í hyldýpið.
Af því fólki hef ég líka lært ósegjanlega mikið og það hefur bæði auðgað og dýpkað trú mína.

III

Mörgum finnst að allri trú fylgi sjálfumgleði og kokhreysti þeirrar manneskju, sem höndlað hefur sannleikann í eitt skipti fyrir öll og hefur því einskis að spyrja lengur. Hugrekki trúarinnar er þó ekki síður að finna í þeirri játningu Maríu Kaschnitz, að hún sé ekki hugrökk. Hún megi vera hrædd. Hún megi efast. Hún megi vera breysk, veik og smá.
Dr. Páll heitinn Skúlason, heimspekingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, segir á einum stað:

„Trú í kristinni merkingu þess orðs táknar hins vegar hvorki hagsmunabundna skoðun né óhagganlega vissu um eitt eða neitt, heldur djúpstæða óvissu manna sem viðurkenna þá einföldu staðreynd að þeir séu hvorki höfundar þessa lífs né herrar jarðar.“

Og fyrir nokkrum árum ritaði Ellert B. Schram örlitla hugvekju þar sem hann segir styrk trúarinnar fólginn í veikleika hennar og segir um hana:

„Hún getur ekkert sannað, hún getur engum atburðum breytt, hún getur ekkert annað en að falla á hné niður og játa sig sigraða gagnvart almættinu.“

Við erum okkur meðvituð um eigin veikleika. Við efumst, missum móðinn, við bregðumst og spyrjum spurninga sem engin svör virðast eiga. Elliblettirnir á vanganum, gráu hárin á kollinum, gigtin í liðunum, allt þetta minnir okkur á hverfulleika okkar. Fréttir streyma til okkar úr hinum ýmsu miðlum um þjáningu, ranglæti, spillingu, græðgi, hungur, misskiptingu og allskonar ómennsku. Við getum hvorki lokað augum né eyrum fyrir öllu þessu.
Myrkrið umvefur okkur. Ill öfl gerast ágeng við okkur. Fyrst svo er, bendir þá ekki allt til þess að bölvunin muni bera blessunina ofurliði, illskan gæskuna og dauðinn standi að lokum uppi sem sigurvegari í stöðugri viðureign hans við lífið?

IV

Hefði sagan endað í dimmu og þögn föstudagsins langa yrðum við að svara spurningunni játandi og dæma dauðanum og myrkrinu sigurinn. Sagan endaði þó ekki í gröfinni. Það kom sunnudagur. Konur fóru að gröfinni. Það komu páskar og upp frá því hafa páskarnir sagt:
Þú mátt vera hrædd sál. Þú mátt vera veikburða manneskja. Þú mátt eiga leitandi hjarta. En þú mátt líka trúa. Þú mátt trúa á lífið, þótt dauðinn æði, þú mátt trúa á það góða, þótt illskan blási. Trúin getur ekkert sannað, hún getur ekki breytt því sem orðið er, en þú mátt trúa í vantrú þinni og vera stór og sterkur í smæð þinni og vanmætti. Þú ert ekki bara upp á þig kominn. Guð ljóssins og blessunarinnar, hann er með þér í myrkrinu, í þjáningunni í öllum dölunum dimmu. Hann tekur þig í fangið og ber þig áfram.

„Þau hugrökku vita
að þau rísa ekki upp
að holdið sprettur ekki upp
í kringum þau
á hinum efsta degi
að þau muna ekkert
hitta engan aftur
að þau eiga ekkert í vændum
enga sælu
enga þjáningu

ég
er ekki hugrökk“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Tekin af facebook-síðu Svavars með leyfi.