Stiklað á stóru í starfi Hjálparstarfs kirkjunnar 2017-18

Stiklað á stóru í starfi Hjálparstarfs kirkjunnar júlí 2017 – mars 2018

Slide01 

Glæra 1          Starfsárið 2017 – 2018

Starfsár Hjálparstarfsins er frá júlí – júní ár hvert. Ársskýrsla síðasta starfsárs er aðgengileg hér: www.help.is/doc/228. Hér á eftir verður stiklað á stóru í starfinu fyrstu átta mánuði núlíðandi starfsárs:

Slide02 

Glæra 2          Aðalfundur

Á aðalfundi Hjálparstarfsins þann 23. september 2017 var Gunnar Sigurðsson, tölvufræðingur, kjörinn formaður framkvæmdastjórnar stofnunarinnar. Gunnar tók við keflinu af Ingibjörgu Pálmadóttur sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Í framkvæmdastjórn Hjálparstarfsins starfsárið 2017 – 2018 eru: Gunnar Sigurðsson, formaður, Páll Kr. Pálsson og Salóme Huld Garðarsdóttir. Varamenn í stjórn eru Hörður Jóhannesson og Vigdís Valgerður Pálsdóttir. Salóme og Vigdís eru nýjar í stjórn en auk Ingibjargar hvarf Lóa Skarphéðinsdóttir úr stjórn í september og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir starfið.

Á fundinum kynnti Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri, starfsskýrslu síðasta starfsárs, frá júlí 2016 – júní 2017, ásamt starfs- og fjárhagsáætlun 2017 – 2018. Hrafn Jökulsson sem hafði veg og vanda af landssöfnun til aðstoðar Grænlendingum undir lok síðasta starfsárs sagði frá verkefninu og fékk lof fundarmanna fyrir störf sín.

Mættir fulltrúar á aðalfund voru 28 talsins og samþykktu þeir að næsti fundur fulltrúaráðs yrði haldinn fimmtudaginn 8. mars 2018 kl. 17 – 20.

Slide03

Glæra 3          Starfið hér heima: stuðningur í neyð

Efnislegur stuðningur

Hjálparstarfið veitir efnislega aðstoð í samvinnu við presta, djákna, félags- og námsráðgjafa um land allt. Aðstoðin felst fyrst og fremst í því að fólk fær inneignarkort í matvöruverslunum.

Á höfuðborgarsvæðinu eru inneignarkortin að mestu einskorðuð við barnafjölskyldur og er einstaklingum vísað á önnur samtök sem bjóða mataraðstoð. Á þeim stöðum þar sem öðrum hjálparsamtökum er ekki til að dreifa fá þeir sem búa einir líka inneignarkort.

Auk inneignarkorta er tekjulágu fólki veitt fjárhagsaðstoð vegna lyfjakostnaðar og við kaup á hjálpartækjum.

Foreldrar grunnskólabarna sem búa við kröpp kjör hafa mörg undanfarin ár getað leitað stuðnings hjá Hjálparstarfinu við að útbúa börnin í skólann. Í skólabyrjun 2017 fengu 114 foreldrar 186 barna aðstoð hjá Hjálparstarfinu en það er svipaður fjöldi og fékk aðstoð haustið 2016. Foreldrarnir fengu flestir inneignarkort í ritfangaversluninni A4, sem og í Lindex og Hagkaupum til að versla skólafatnað.

Hjálparstarfið styrkir einnig ungmenni til náms sem gefur þeim réttindi til starfs eða veitir þeim aðgang að lánshæfu námi. Markmiðið er að rjúfa vítahring lítillar menntunar, lágra launa og viðvarandi fátæktar ungmenna. Á síðasta starfsári naut 51 ungmenni styrk til greiðslu skólagjalda í framhaldsskólum og fyrir bóka- og efniskostnaði. Meðalupphæð hvers styrkjar var um 33.000 krónur.

Hjálparstarf kirkjunnar leggur áherslu á að hlúa að börnum sem búa við fátækt. Markmiðið er að þau geti styrkt sjálfsmynd sína sem afttur leiðir til aukinnar virkni og þátttöku í samfélaginu. Samtals fengu 53 börn og unglingar undir átján ára aldri styrk frá Hjálparstarfinu á síðasta starfsári til íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs.

 

Fatasöfnun og -úthlutun

Hinir ómetanlegu sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins vinna ötullega við fataúthlutun á þriðjudögum og taka fatnað upp úr pokum, flokka og setja í hillur á miðvikudögum. Í desember 2017 og janúar 2018 fengu 360 fjölskyldur (um 970 einstaklingar) notaðan fatnað hjá Hjálparstarfinu eða ellefu fjölskyldum (30 einstaklingum) færri en í fyrra.

Sífellt fleiri einstaklingar í hælisleit og annað fólk sem er nýkomið til landsins leita til Hjálparstarfsins um fatnað en fólk fætt á Íslandi er í miklum minnihluta þeirra sem sækjast eftir þeirri aðstoð. Má leiða líkum að því að íslenskar fjölskyldur leiti frekar til stórfjölskyldu og vina um notaðan fatnað en að fólk sem hér er tímabundið eða nýsest að hafi ekki það tengslanet að leita til.

Hjálparstarfið nýtur í síauknum mæli velvilja almennings sem gefur nýjan og notaðan fatnað, leikföng og húsbúnað til útthlutunar. Félagasamtök kvenna gefa til dæmis prjónaflíkur á lítil kríli. 

Ráðgjöf

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins hafa sérstakan viðtalstíma og taka á móti fólki sem leitar eftir efnislegri aðstoð á miðvikudögum klukkan 12:00 – 16:00. Í viðtölunum segir fólk frá aðstæðum sínum og hefur með sér gögn um tekjur og útgjöld síðasta mánaðar. Að teknu tilliti til gagna veita félagsráðgjafarnir inneingarkort í matvöruverslunum en líka ráðgjöf og vísa fólki á frekari úrræði í samfélaginu. Sjálfboðaliði veitir fjármálaráðgjöf alla föstudagsmorgna.

Slide04

Glæra 4          Jólaaðstoð

Hjálparstarf kirkjunnar leggur áherslu á að aðstoða fólk sem býr við kröpp kjör fyrir jólin svo það geti gert sér dagamun og glaðst með fjölskyldunni yfir hátíðarnar. Alls nutu 1304 fjölskyldur eða um 3500 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu  jól samanborið við 1471 fjölskyldu eða um 4000 einstaklinga á fyrra starfsári.

Aðstoðin tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru en fólk fær einnig notaðan fatnað eða inneignarkort fyrir fatnaði, aðgöngumiða í leikhús og / eða bíó og inneignarkort hjá vinsælum veitingastöðum meðal barna og unglinga. Þá fá foreldrar efnislega aðstoð svo börnin geti fengið jólagjafir sem þau hafa sett á óskalistann.

Fyrir jól 2017 var gott samstarf um jólaaðstoð milli Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins í Reykjavík, og við Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefndir og Rauða krossinn á Eyjafjarðarsvæðinu og í Árnessýslu. Eins og fyrr gat fólk einnig leitað til presta og djákna í kirkjum vítt um land.

Slide05

Glæra 5          Valdefling: Sjálfstyrking og samvera

Efnislegur stuðningur er nauðsynlegur til þess að svara brýnni þörf en til þess að komast út úr vítahring fátæktar og félagslegrar einangrunar þarf að takast á við aðstæður á breiðum grunni. Undanfarin ár hefur Hjálparstarfið þróað starfið til þess að svara sem best þörfum þeirra sem til stofnunarinnar leita.

Hjálparstarfið starfar í anda hugmyndafræði um valdeflingu og leitast við að styðja fólk við að bæta félagslega stöðu sína og almenn lífsgæði. Einstaklingsmiðuð nálgun og notendastýrð þjónustu eru lykilverkfæri félagsráðgjafa Hjálparstarfsins sem leggja höfuðáherslu á að hlusta, ræða og reyna að skilja einstaklingana sem til þeirra leita og vinna með þeim á forsendum þeirra sjálfra.

Í öllu starfi er markmiðið að fólk hafi fundið styrk sinn og getu til að takast á við erfiðar aðstæður og til að komast út úr félagslegri einangrun sem oft er fylgifiskur efnaleysis. Sérstök áhersla er lögð á starf í þágu barna og unglinga sem miðar að því að þau hafi sterka sjálfsmynd og séu virkir þátttakendur í samfélaginu.

Virkni og vellíðan – Taktu ábyrgð á eigin lífi er tveggja ára verkefni sem hófst í september 2016. Átta konur taka þátt í verkefninu sem er ætlað að undirbúa einstæðar mæður sem búa við örorku og eru með ungling á heimilinu undir þau tímamót þegar barnið verður 18 ára og þar með fjárráða. Við það minnka heimilistekjur verulega þar sem meðlag, barnalífeyrir, barnabætur og húsaleigubætur vegna barns falla þá niður. Þegar börnin verða sjálfráða verður einnig ákveðin breyting á mæðrahlutverkinu.

Taupokar með tvöfalt hlutverk: Konur sem bíða niðurstöðu hælisumsóknar og þær sem nýverið hafa fengið hæli hér á landi en eru enn utan vinnumarkaðar hafa tjáð þörf fyrir virkni af einhverju tagi. Til að svara þeirri þörf hafa Hjálparstarfið og Hjálpræðisherinn í sameiningu boðið konunum að taka þátt í saumaverkefni sem um leið er til verndar umhverfinu. Konurnar sníða og sauma fjölnota innkaupapoka úr efni og / eða notuðum fatnaði sem almenningur hefur gefið okkur og nota til þess saumavélar sem almenningur hefur gefið sömuleiðis. Krónan er meðal þeirra sem styrkja verkefnið og gerir það með því að kaupa 500 poka.

Borðum saman er samstarfsverkefni Hjálparstarfsins og samfélags Ahmadiyya-múslima á Íslandi sem hófst í mars 2017. Markmiðið er að bjóða fólki sem býr við verulegan skort upp á kvöldmat og notalega stund í Grensáskirkju tvö kvöld í mánuði.

Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar er nýtt og spennandi verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar sem hófst  í  febrúar 2018. Markmið þess til tveggja ára eru að þátttakendur – konur sem búa við örorku og eru með börn á framfæri – fái bætt sjálfsmynd sína og aukna trú á eigin getu, að þær styrki tengslanet sitt til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og að þær eflist í foreldrahlutverkinu. Fyrst á dagskránni eru sjálfstyrkingar- og fjármálanámskeið.

Páskafjöri á Úlfljótsvatni er tveggja nátta ferð sem er fyrirhuguð í apríl fyrir börn sem búa við kröpp kjör og eru í 5. – 8. bekk.

Slide06 

Glæra 6          Málsvarastarf

Á Íslandi búa yfir 16 þúsund manns við fátækt og um 5 þúsund manns við sára fátækt. Nauðsyn baráttunnar gegn fátækt og félagslegri einangrun er því til staðar. Hjálparstarfið telur brýnt að fólk sem býr við fátækt tali fyrir sig sjálft og taki þátt í opinberum ákvörðunum sem það varðar. Þjónusta við fólk í félagslegri neyð á að vera notendastýrð og fólk á að geta lifað mannsæmandi lífi af launum sínum og lífeyri.

EAPN og Pepp á Íslandi, samtök fólks í fátækt

EAPN á Íslandi eru regnhlífasamtök þeirra félaga sem berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun á Íslandi. Samtökin eiga aðild að EAPN (European Anti Poverty Network) sem voru stofnuð árið 1990. Níu aðildarfélög standa að EAPN á Íslandi og eiga þau öll sammerkt að hafa sem hluta af sínum markmiðum að vinna að málefnum fátækra. Þau eru Félag einstæðra foreldra, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, Kærleiksþjónusta kirkjunnar, Samhjálp, Sjálfsbjörg, Hagsmunasamtök heimilanna og Öryrkjabandalag Íslands.

Lykilþáttur í starfsemi EAPN á Íslandi er virk þátttaka Pepp á Íslandi (PeP: People experiencing Poverty) sem samanstendur af öflugum hópi einstaklinga sem hafa sjálfir upplifað fátækt og félagslega einangrun. Pepp stóð fyrir málstofunni Fátækt er ekki aumingjaskapur í Róttæka sumarháskólanum og á Fundi fólksins í september. Hópurinn hélt tvo morgunverðarfundi í haust, annar um málefni skuldara og hinn um fátækt meðal vinnandi fólks þar sem kom fram að um 7% vinnandi fólks á Íslandi búa við fátækt.  Pepp bauð frambjóðendum til alþingiskosninga í mat og umræður um fátækt á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt þann 17. október 2017. og fyrir samtali milli fjölmiðlafólks og fólks með reynslu af fátækt á f fjölmiðlavinnustofu í desember 2017. Á morgunverðarfundi á Grand Hótel þann 23. febrúar 2018 stendur til að ræða hugmyndina um borgaralaun undir yfirskriftinni Eru borgaralaun málið? Fjölmiðlaverðlaun götunnar verða veitt í annað sinn í lok febrúar 2018. Pepp hefur opnað eigin skrifstofu sem er opin mánudaga og miðvikudaga kl. 10:00 – 16:00.

Stórt skref í baráttunni yrði ef Alþingi samþykkti framkvæmdaáætlun gegn fátækt með sérstaka áherslu á húsnæðisvanda þeirra sem búa við fátækt. Að því mun EAPN á Íslandi vinna uns enginn á Íslandi þarf að búa við það brot á mannréttindum sem fátækt og félagsleg einangrun er.

Vilborg sæmd fálkaorðunni Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins var á nýjársdag 2018 sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til samhjálpar og baráttu gegn fáækt í samfélaginu og er Hjálparstarfið að vonum stolt af sinni konu!

Slide07 

Glæra 7          Breytendur

Breytendur -Changemaker á Íslandi, er hreyfing ungs fólks sem hefur það að markmiði að gera heiminn að sanngjarnari og réttlátari stað með jákvæðum aðgerðum. Hreyfingin er að norskri fyrirmynd og starfar undir verndarvæng Hjálparstarfsins. Heimasíða Breytanda (et. Breytönd) er www.changemaker.is en hreyfingin heldur einnig úti Facebooksíðu. Guðjón Andri Reynisson var ráðinn í 20% starfshlutfall frá júní 2017 til að efla starfið en það hefur legið í láginni undanfarið.

Slide08 

Glæra 8          Eþíópía

Stærsta verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu er með sárafátæku fólki í Sómalífylki í Eþíópíu. Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti bætt fæðuöryggi sitt með bættum aðferðum í landbúnaði og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar. Verkefnið hefur verið í samstarfi við Lútherska heimssambandið í Eþíópíu með dyggum stuðningi frá einstaklingum og utanríkisráðuneytinu síðan árið 2007 eða í 10 ár.

Brunnar hafa verið grafnir og þar sem það er ekki mögulegt eru grafnar vatnsþrær. Nýjar og þurrkþolnar korntegundir eru kynntar til sögunnar, bættar ræktunaraðferðir og betri verkfæri. Dýraliðar hafa verið þjálfaðir til að meðhöndla og bólusetja búfé. Konur taka þátt í sparnaðar- og lánahópum og fá fræðslu um atvinnureskstur. Margar hafa hafið smárekstur. Þær reka litla búð, hafa hafið geita- og hænsnarækt og byrjað að rækta grænmeti. Mjög margar kvennanna tala um breytta stöðu þar sem þær hafa fjárráð og ákvörðunarvald sem var nær óþekkt áður.

Verkefnið hefur á þessum 10 árum náð til meira en 130.000 einstaklinga í Jijigahéraði og breytt lífi þeirra til hins betra. Á nýju ári færir Hjálparstarfið sig yfir í nýtt hérað, Kebri Beyah-hérað, sem er enn austar í Eþíópíu enda er sjálfbærni ein megin stoðin í verkefninu í Jijiga og tími kominn til að færa sig yfir í næsta hérað, en um leið að nýta alla þá reynslu sem komin er.

Slide09

Glæra 9          Úganda

Börn sem búa við sára fátækt eru í forgangi í verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar

Frá árinu 2006 hefur Hjálparstarfið tekið þátt í verkefnum í þágu HIVsmitaðra, alnæmissjúkra, aðstandenda þeirra og eftirlifenda í þremur héruðum í Úganda; Rakaí, Lyantonde og Sembabule þar sem nýsmit HIV hefur verið tíðara en annars staðar í landinu (stór umferðaræð liggur i gegnum Lyantonde. Þar neyðir fátæktin ungar konur í vændi en kaupendur eru að stórum hluta bílstjórnar vöruflutningabíla sem fara í gegnum héraðið).

Síðustu starfsár hefur samstarf Hjálparstarfs kirkjunnar verið við samtökin Rakai Community Based AIDS Organization (RACOBAO) sem sprottin eru upp úr starfi Lútherska heimssambandsins í Rakaí og Lyantonde. Skjólstæðingar RACOBAO eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína úr alnæmi og búa ein sem og HIVsmitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sára fátækt.

Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins með því að reisa íbúðarhús með grunnhúsbúnaði, eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti og helstu áhöldum. Reistir eru kamrar og fólkið frætt um samband hreinlætis og smithættu og hvernig bæta má hreinlætisaðstöðu. Aðgangur að hreinu vatni er aukinn til muna með því að koma upp rigningarvatnssöfnunartönkum við hlið íbúðarhúsanna og með viðhaldi á brunnum í héruðunum. Fólkið fær svo geitur og hænur til að auka fæðuval og möguleika á tekjuöflun.

Á árinu 2018 áætlar Hjálparstarfið að aðstoða við byggingu húsa, eldaskála, kamra og vatnstanka fyrir þær þrjár fölskyldur sem samfélögin i Rakai og Lyantonde meta að seú í brýnustu þörf fyrir aðstoð.

Ungmennin sem fá séns í Kampalaverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar

Í janúar 2017 hóf Hjálparstarfið stuðning við börn og ungmenni í Kampala, höfðuðborg Úganda en samkvæmt Alþjóðabankanum er atvinnuleysi meðal ungs fólks hvergi meira í heiminum en einmitt þar eða um 60%. Verst er ástandið í höfuðborginni Kampala en þangað flykkist ungt og oftast ómenntað fólk úr sveitum landsins í von um betra líf. Margra þeirra bíður hins vegar að kúldrast í fátækrahverfum þar sem neyðin rekur þau til að taka þátt í glæpagengjum eða selja líkama sinn til að geta séð sér farborða. Börn og unglingar í höfuðborginni eru því útsett fyrir misnotkun af ýmsu tagi og eymdin leiðir til þess að þau verða auðveldlega fíkniefnum að bráð.

Kampalaverkefni Hjálparstarfsins er í þremur fátækrahverfum borgarinnar og varir í 3 ár. Áætlaður heildarkostnaður er um 33 milljónir króna. Markhópurinn eru 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára en markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það getur nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Lútherska heimssambandið og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) með góðum stuðningi utanríkisráðnuneytisins. UYDEL hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Í verkmenntamiðstöðvum UYDEL geta ungmennin valið sér ýmis svið og öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð.

Í verkmenntamiðstöðvunum er kennt fyrir hádegi en eftir hádegi er skipulagt frístundastarf í boði. Eitt af því sem unglingarnir geta lagt stund á er dans og trumbuslátt en í Kampala er vinæslt að ráða danshópa til að sýna hefðbundinn dans í veislum við ýmis tækifæri. Dansinn og tónlistina er geta unglingarnir þannig nýtt sér til framfærslu.

Slide10

Glæra 10        Indland

Skóli og heimavist fyrir fátæk börn í Andhra Pradeshfylki

Hjálparstarfið heldur enn um sinn áfram stuðningi sínum við skólastarf Sameinuðu indversku kirkjunnar, United Christian Church of India eða UCCI, sem var stofnuð árið 1972 en síðan þá hefur hún hjálpað fátæku fólki og börnum þeirra með því að halda úti skólastarfi og heimavist ásamt matargjöfum og spítalarekstri í Andhra Pradesh-fylki í austurhluta Indlands. Hjálparstarf kirkjunnar hefur í rúman aldarfjórðung stutt starfið með því að kosta börn í skóla og heimavist ásamt því að senda stök framlög vegna viðhalds bygginga og til starfsemi spítalans.

Í febrúar 2018 styrktu Hjálparstarfið og um 220 íslenskir fósturforeldrar 277 börn til skólavistar hjá Sameinuðu indversku kirkjunni (UCCI) í Andhra Pradeshfylki. Sextíu og sjö barnanna eru í grunnskóla og 210 eru í bóklegu eða verklegu framhaldsnámi. Hjálparstarfið greiddi einnig laun átta kennara við skólann.

Slide11 

Glæra 11        Mannúðaraðstoð

Í febrúar 2018 samþykkti utanríkisráðuneytið að veita 25 milljóna króna framlag til mannúðarastoðar Hjálparstarfsins við flóttafólk frá Sýrlandi og fólk sem býr við kröppustu kjörin í móttökusveitarfélögum í Jórdaníu.

Verkefnið er í samstarfi við Lútherska heimssambandið til loka 2018. Fólkið fær húsbúnað og aðstoð við að koma sér fyrir ásamt stuðningi við að afla sér lífsviðurværis með starfsnámi og greiðslu fyrir vinnuframlag. Skólagjöld verða greidd fyrir 75 nemendur og 100 konur fá þjálfun og aðstoð við að koma sér upp verslun með smáiðnað. Þá verður börnum og unglingum veittur sálrænn stuðningur og sálfélagsleg þjónusta veitt konum með því að bjóða þeim að taka þátt í skipulögðum íþróttum.

Slide12 

Glæra 12        Haustsöfnun – Ekkert barn útundan!

Hjálparstarfið safnaði fyrir aðstoð við efnaminni foreldra í ágúst og september með valgreiðslukröfu í heimabanka að uphæð 2.600 krónur en einnig með því að bjóða fólki að senda sms í símanúmerið 1900 með textanum Styrkur en þannig gjaldfærðust 1.300 krónur af símreikningi. Fyrirtæki, félagasamtök og sóknir þjóðkirkjunnar lögðu starfinu auk þess lið með rausnarlegu hætti en alls söfnuðust um 6,4 milljónir króna.

Slide13 

Glæra 13        Fjáröflun með aðstoð barna í fermingafræðslu um allt land

Fermingarbörn í 62 sóknum um land allt tóku þátt í fjáröflun fyrir vatnsverkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku í nóvember. Verkefnið gekk mjög vel en alls söfnuðust um 8,4 milljónir króna.  Prestar, annað starfsfólk kirkna, foreldrar og síðast en ekki síst börnin sjálf leggja á sig mikla vinnu við söfnunina og er framlag þeirra ómetanlegt. Bestu þakkir til allra sem tóku þátt í verkefninu!

Slide14 

Glæra 14        Jólasöfnun

Í jólasöfnuninni 2017 var safnað fyrir vatnsverkefnum Hjálparstarfsins í Eþíópíu og Úganda.  Heildarsöfnunarfé til verkefna erlendis og til innanlandsaðstoðar í desember og janúar að gjafbréfum meðtöldum var 73 milljónir króna en þar af voru 32 milljónir eyrnamerktar innanlandsaðstoð. Einstaklingar, fyrirtæki og samtök standa að baki þessum gjöfum.

Slide15

Glæra 15        gjofsemgefur.is

Á fyrstu sjö mánðuðum starfsársins 2017 – 2018 keypti fólk gjafabréf fyrir um 8,5 milljónir króna á www.gjofsemgefur.is. Geitin er enn vinsælasta gjöfin.  Segjum fólki frá gjöf sem gefur!

Slide16 

Glæra 16        Hjálparliðinn

Hjálparliðar styrkja Hjálparstarfið með mánaðarlegu framlagi og gera okkur betur kleift að rétta hjálparhönd þeim sem á þurfa að halda. Við hófum að leita Hjálparliða á vorönn 2016 og eru þeir nú um 1400 talsins. Við höldum áfram að leita til fólks um að vera með og erum nú meðal annars að uppfæra heimasíðu Hjálparstarfsins svo fólk geti skráð sig sem Hjálparliða á henni. Við hringjum í fólk með reglulegu millibili og bjóðum því til þátttöku. Þá sendum við Hjálparliðunum okkar fréttabréf í tölvupósti á tveggja mánaða fresti með nýjustu fréttum af starfinu, einni frétt af starfinu innanlands og annarri af starfinu á alþjóðavettvangi.

Slide17 

Glæra 17        Fréttablaðið Margt smátt…

Fréttablað Hjálparstarfsins kemur út fjórum sinnum á ári, tvisvar í tímaritsformi, sent til um 4.000 aðila, og tvisvar í dagblaðsformi, sent á heimili í landinu með Fréttablaðinu í upphafi jólasöfnunar og í upphafi páskasöfnunar. Í blaðinu segjum frá starfinu bæði hér heima og erlendis. Fyrirtæki og samtök kaupa auglýsingar og styrktarlínur í blaðinu.

Slide18 

Glæra 18        Samfélagsmiðlar og heimasíðan www.Help.is

Ný vefsíða er í smíðum sem á að auðvelda fólki að taka þátt í starfinu. Facebooksíða Hjálparstarfsins er mikið notuð til að auglýsa verkefni og viðburði. Endilega hvetjið ykkar fólk til að læka við síðuna, deila færslum og taka þátt í umræðum sem þar skapast.

Slide19

Glæra 19        „Hjálparstarf kirkjunnar er hjálparstarfið mitt!“

Við erum stolt af starfinu og viljum að fleiri viti af þeirri aðstoð sem er í boði fyrir fólk í neyð á Íslandi og af þeim verkefnum sem í gangi eru í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Hjálpumst að við að láta boð út berast! 😊 Takk!