20 ára afmæli æðruleysissmessunnar – Hugvekja sr. Jónu Lísu Þorsteinsdóttir

Mig langar að segja frá manni sem hefur haft mikil áhrif á líf mitt, verið mér dálítill lærifaðir.

Hann býr í Stokkhólmi, er sænskur Finni, þjónaði um tíma sem baptistaprestur, er virtur guðfræðingur, rithöfundur, meðferðaraðili og mannvinur. Hann heitir Harry Månsus.

Árið 1988 upplifði hann mikla sálarkreppu í prestsþjónustunni.

Honum fannst hann ekki ná til  safnaðarins,  ekki eiga neitt að gefa, vera að brenna út.

Hann sagði starfi sínu lausu, en ákvað í kjölfarið að kynna sér helgihald hjá öðrum kirkjudeildum og þræða kirkjur í Stokkhólmi með opnum augum og eyrum hins leitandi manns.

Þegar hann fór í Katarina-kirkjuna í fyrsta sinn grunaði hann ekki að það yrði upphafið á kynnum hans af sterkri andlegri hreyfingu.

Presturinn, Olle Carlsson, var að kveðja söfnuðinn. Predikun hans var frábær og í kirkjukaffinu lét Harry í ljós vonbrigði yfir að hann væri að yfirgefa kirkjuna.

Það væru prestar eins og hann sem kirkjan þyrfti á að halda.

Þegar Olle Carlsson útlistaði fyrir Harry starfið sem hann væri á leið í, var hann svo fullur af eldmóði og andagift að Harry hreifst með og eftir samtalið hélt hann áfram að velta fyrir sér þessum framandlegu orðum:   AA-samtök, 12 reynsluspor, Minnesota modell, áfengismeðferð,  meðferðarheimili, alkóhólismi.

Nokkru síðar var hann beðinn að prófarkalesa bók eftir trúbadorinn og skáldið Ulf Lundell, sem segir þar frá reynslu sinni af því að fara í áfengismeðferð og fjótlega áttaði Harry sig á að hann var að lesa um þann heim sem Olle Carlsson talaði um í Katarinakirkju.

Og í bókinni nefndi Lundell einmitt að séra Olle Carlson hafi komið við sögu í þeirri andlegu vakningu sem hann upplifði í meðferðinni.

Nokkrum mánuðum síðar var Harry boðið starf á þessu sama meðferðarheimili.

Mjög óöruggur, en jafnframt spenntur, ákvað hann að þiggja starfið. Hann gerði sér grein fyrir að hann var ókunnugur í heimi alkóhólisma og fíkniefnaneyslu.

Fór að lesa sig til og upplifði að textarnir töluðu ekki bara til alkóhólista og aðstandenda, hann þekkir sjálfur sársaukann og vanmáttinn sem verið var að lýsa.

Þekkti tilhneiginguna til að flýja sársaukann, allar þessar árangurslausu tilraunir til að stjórna tilfinningum og hegðun sem valda sársauka. Skynjaði að flótti alkóhólistans undan erfiðum tilfinningum og inn í vímuna átti sér hliðstæðu hjá honum sjálfum t.d. í vinnu- og verkefnafíkn, skildi að það var hægt að kafa niður á botn sársauka og örvæntingar með mörgu móti.

Svo kom að því að Harry átti að taka viðtöl. Aldrei hafði hann upplifað neitt slíkt. Aldrei hafði hann í samtali við manneskju mætt öðrum eins sársauka og niðurlægingu, heyrt um jafn mikið ofbeldi og sjúk sambönd. Honum fannst frásagnirnar ganga yfir hann eins og brotsjóir og kunni fyrst ekki að verja sig sársauka skjólstæðinga sinna, en fann samt um leið undarlegan kraft og nærvera fylla herbergið meðan hann hlýddi á sögur þeirra.

Þegar hann fór yfir þessi fyrstu samtöl í huganum fannst honum heitur straumur fara um sig og hann skildi og skynjaði  svo sterkt að Kristur hefði aldrei yfirgefið sína minnstu bræður, að hann var og er enn í dag nálægur í leynum hvar sem smá og vanmáttug manneskja hnígur niður og þarfnast hjálpar.

Að heimilisfangið þar sem Kristur vill að við mætum honum felist í orðunum: „Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum mínum minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“

Harry Månsus telur sig hafa átt bestu ár ævi sinnar í starfinu sem ráðgjafi á meðferðarheimilinu.

Sú andlega krísa sem hann hafði lent í áður en hann fór að vinna þar breyttist í glóð.

Æðruleysismessan varð til í reynslu hans af því að starfa með alkóhólistum.

Hún spratt upp úr þrá skjólstæðinga hans eftir andlegum bata í öruggu, vinveittu og græðandi umhverfi. Í þörfinni fyrir samkennd eftir niðurbrot og niðurlægingu. Þörfinni fyrir Guð í lífi okkar. Þessari sammannlegu þörf sem Ágústínus kirkjufaðir orðaði svo: „Hjarta mitt er órótt uns það hvílir í þér.“

Kynni Harrys af 12 spora leiðinni leiddu ekki aðeins til þess að æðruleysismessan varð til, hann lagði líka grunn að ört vaxandi þverkirkjulegri og þverfaglegri grasrótarhreyfingu sem kallast Brommadialogen.

Markmið hennar er að mæta manneskjunni þar sem hún er stödd, leita úrræða fyrir brotna og veika einstaklinga, byggja brýr milli ólíkra trúarskoðana, bjóða upp á samtal og samvinnu, fræðslu, mismunandi helgihald o.s.frv

Árið 2001 vorum við kirkju- og æðruleysiskonurnar, ég og Sólveig Jónsdóttir, sem einnig starfaði í Akureyrarkirkju, svo lánsamar að geta sótt tíu ára afmælisráðstefnu Brommadialogens.

Sú ráðstefna var sterk upplifun og fyllti okkur af enn meiri æðruleysismessuást og nýjum hugmyndum.

Þetta voru dýrðardagar. Við Sólveig þeyttumst milli fyrirlestra og messuhalds. Fimm messur á fjórum dögum undir merkjum Brommadialogens og æðruleysismessunnar og ótal spennandi fyrirlestrar.

Við vorum líka svo ótrúlega lánsamar að kynnast Harry Månsus og Leu konu hans strax á fyrsta degi – byrjuðum reyndar á að fara með þeim í æðruleysismessu til Bromma, —- þar sem allt byrjaði.

Þau hjónin reyndust okkur einstaklega vel og Harry gladdist mjög yfir að æðruleysismessan skyldi vera komin til Íslands.

En hvernig kom hún til Íslands?

æðruleysismessa_01 (1)

Æðruleysismessa í Akureyrarkirkju

Vorið 1997 hafði ég verið vígð til starfs fræðslufulltrúa á Norð-Austurlandi og  átt ógleymanlegan og fallegan dag í borginni með ástvinum mínum, vígsludaginn mínn.

Daginn eftir héldum við heim á leið og í þeirri ferð lést maðurinn minn skyndilega. Öll  gleðin og birtan sem hafði umvafið okkur daginn áður varð að svartnætti.

Séra Svavar var staddur heima hjá mér daginn eftir andlátið, þegar barnsfaðir minn, sem sem var búsettur í Svíþjóð, kom til að hitta ungan son okkar og styðja hann í sorginni.

Hann sagði okkur séra Svavari frá æðruleysismessunum sem væru að festa rætur í  Svíþjóð, aðallega á Stokkhólmssvæðinu.

Við urðum strax mjög áhugasöm og með hans hjálp komumst við í samband við nokkra af frumkvöðlum messunnar og síðla hausts vorum við komin með nákvæmar upplýsingar um þetta helgihald.

Ég var brauðlaus og kirkjulaus prestur, en fyrir velvilja séra Svavars og áhuga fyrir að láta reyna á þetta, fór boltinn að rúlla.

Og þann 15. febrúar árið 1998,  þjónuðum við séra Svavar saman í fyrstu æðruleysismessunni á Íslandi.

Ég er viss um að æðruleysismessan hefði verið tekin upp á Íslandi fyrr eða síðar, en ég hef alltaf valið að líta svo á að þarna hafi Guð verið að verki, að andlát mannsins míns hafi orðið til að flýta komu hennar og sjálf upplifði ég að Guð hefði sent hana til mín eins og ljós í myrkri.

Og innra með mér helgaði ég hana minningu mannsins míns, sem gekk með mér leiðina að vígslunni, var einlægur trúmaður og sannur AA maður.  Blessuð sé minning hans.

Messan náði fótfestu í rólegheitum, æ fleiri prestar vildu taka hana upp í sinni kirkju.

Í Akureyrarkirkju myndaðist tryggur hópur sjálfboðaliða og tónlistarfólks kringum hana.

Við vorum einstaka sinnum í Glerárkirkju, en Akureyrarkirkja var einhvernveginn alltaf heimakirkjan okkar.

Á þessum fyrstu árum fórum við, ég og mitt frábæra tónlistarfólk, m.a. til Sauðárkróks, Húsavíkur, Ólafsfjarðar, Dalvíkur, Siglufjarðar og Hríseyjar til að kynna messuna. Einnig vorum við með æðruleysismessu á  Egilsstöðum og í Dómkirkjunni í Reykjavík.

æðruleysismessa_hljomsveit (1)

Tónlistarfólkið ómetanlega

Þetta voru stundum hinar ævintýralegustu ferðir, alltaf góðar og gefandi.

Ég hvarf til annarra starfa haustið 2005 og síðan hafa séra Sólveig Halla, séra Jóna Lovísa  og síðustu árin séra Sunna Dóra og séra Oddur Bjarni stýrt þessu helgihaldi í Akureyrarkirkju með sóma og af elsku og hafi þau hjartans þökk fyrir.

Þegar liðin voru 10 ár frá fyrstu æðruleysismessunni starfaði ég sem íslenskur prestur í alþjóðlegri og þverkirkjulegri kirkju á Kanarí, Templo Ecumenico.

Þá var það að fjörutíu manna æðruleysisvinahópur frá Akureyri tók sig til og kom til eyjarinnar til að halda upp 10 ára á afmælið.

Við vorum með æðruleysismessu í Templo Ecumenico og áttum saman ógleymanlegan tíma á eyjunni góðu.

Æðruleysismessa_JónaLísa_smurning (1)

Jóna Lísa að annast smurningu og blessunar

Fyrir náð Guðs.  Því ég trúi ekki á tilviljanir.

Ég trúi ekki að tilviljun ein hafi ráðið því að Bill og Bob, upphafsmenn AA samtakanna hittust.

Að Harry Månsus hafi fyrir tilviljun verið leiddur í veg fyrir fólk sem beindi honum inn á tólf spora leiðina.

Að ég hafi fyrir tilviljun rekist á fólkið sem vísaði mér leið inn í AA samtökin, að ég hafi fyrir einskæra tilviljun fyrst heyrt af æðruleysismessunni daginn eftir andlát mannsins míns.

Guð hefur áætlun með okkur. Við sjáum ekki alltaf fingraför hans í lífi okkar eða skiljum vegi hans, en hann er með í för á veginum okkar.

Og nú erum við hér og fögnum tuttugu árum með æðruleysismessunni og niðri í Safnaðarheimili bíða okkar tertur og kleinur í tilefni dagsins.

Takk fyrir það Akureyrarkirkja og takk fyrir að hýsa æðruleysismessuna.

Takk, Guð, fyrir æðruleysismessuna og AA prógrammið, takk fyrir sporin 12 sem breyttu lífi mínu til góðs þegar myrkrið var að umlykja mig og eru með þér undirstaða þess góða lífs sem ég á.

Takk fyrir að ég er daglega minnt á að það er aðeins hársbreidd milli þess sem er og allt í einu getur orðið – og þá breytt öllu. Að ég man að það er ekki sjálfsagt að ganga vel, það gengur ekki öllum vel á veginum til algáðs lífs.

Þess vegna sagði Bill: Þegar einhver þarfnast hjálpar vil ég að hönd AA samtakanna sé til staðar —- og ég ber ábyrgð á því.

Guð blessi ykkur öll sem hér eruð og með nærveru ykkar gefið hvert öðru af reynslu ykkar, styrk og vonum. Njótum þess að finna styrkinn í nærverunni við hvert annað og Hann sem aldrei er fjarri, aldrei var fjarri.

Heldur ekki þegar allt virtist vonlaust.

æðruleysismessa_20ara