Átta daga bænirnar og ritningarvers – dagleg íhugun vikuna 18-25. janúar

Bænavika 2018

Áttadaga bænir 2018_umbrot

Forsíða af vefútgáfu – hana má nálgast á Pdf-formi hér fyrir neðan

Kæru vinir í Kristi. Við erum kölluð til biðja saman og í einrúmi þessa viku 18. – 25. janúar, til að biðja fyrir einingu kristinna mann með systrum og bræðrum í trúnni um víða veröld. Við skulum þakka Guði fyrir okkar kristnu arfleifð og fyrir þá frelsun og björgun sem við sjáum í verki Guðs í mannkynssögunni bæði á eiginn slóðum og annars staðar.

Efni bænaviku fyrir einingu kristninnar kemur að þessu sinni frá kirkjum í Karabíska hafinu. Saga kristninnar á því svæði inniheldur ákveðna þversögn. Annars vegar notuðu nýlenduherrarnir Biblíuna til að réttlæta undirokun upprunalegra íbúa landanna og þeirra sem voru flutt nauðug frá Afríku, Indlandi og Kína. Mörgum var útrýmt, fólk var hlekkjað og hneppt í þrældóm og þjáð undir ranglátum vinnuaðstæðum. Hins vegar varð Biblían uppspretta huggunar og frelsunar fyrir mörg þeirra sem þjáðust undir valdi nýlenduherranna.

Í dag er Biblían áfram uppspretta huggunar og frelsunar, hvati kristnu fólki á karabíska svæðinu til að takast á við þær aðstæður sem um þessar mundir gera lítið úr mannlegri reisn og lífsgæðum. Um leið og járnhlekkir þrælkunar falla af höndum okkar verður til nýtt band kærleika og samfélags í fjölskyldu mannkyns, band sem tjáir eininguna sem við biðjum um sem kristin samfélög.

Við viljum hvetja alla til að taka sér tíma til bæna, lesa og íhuga efnið í einrúmi eða mæta á þær bænasamverur sem auglýstar eru þessa daga í söfnuðunum. Orðið er kristnum mönnum uppspretta trúar og vonar. Lestrarnir eru valdir með efni hvers dags í huga til að vekja okkur til samkenndar og bæna fyrir söfnuðunum og fólki á karabíska svæðinu um leið skulum við láta anda Guðs minna okkur á það annað sem neyðin kennir okkur að biðja fyrir. Látum bænina vera okkar fyrsta og fremsta verk þessa viku. Þemasöngur vikunnar birtist hér í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar, efnið þýddi Hjalti Þorkelsson og Þorkell Örn Ólason og María Ágústsdóttir skrifaði inngang og þýddi efni fyrir sameiginlega guðsþjónustu. Efnið er allt aðgengilegt á vef Þjóðkirkjunnar á kirkjan.is og eything.com.

Áttadaga bænir 2018 og Ritningarlestrar á Pdf-formi

 

1. dagur – 18. janúar:
Þú skalt einnig elska útlendinginn, því að þú varst útlendingur í Egyptalandi

 

3Mósebók 19: 33-34
Þú skalt elska útlendinginn eins og sjálfan þig

33Þegar aðkomumaður dvelur hjá ykkur skuluð þið ekki sýna ójöfnuð. 34Aðkomumaður, sem dvelur hjá ykkur, skal njóta sama réttar og innborinn maður. Þú skalt elska hann eins og sjálfan þig því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð ykkar.

Sálm 146
Drottinn varðveitir útlendingan

1Hallelúja.
Lofa þú Drottin, sála mín.
2Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi,
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
3Treystið eigi tignarmönnum,
mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4Þegar öndin skilur við þá
verða þeir aftur að moldu
og áform þeirra verða að engu.
5Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar
og setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6hann sem skapaði himin og jörð,
hafið og allt sem í því er,
hann sem er ævinlega trúfastur.
7Hann rekur réttar kúgaðra,
gefur hungruðum brauð.
Drottinn leysir bandingja,
8Drottinn opnar augu blindra,
Drottinn reisir upp niðurbeygða,
Drottinn elskar réttláta,
9Drottinn verndar útlendinga,
hann annast ekkjur og munaðarlausa
en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10Drottinn er konungur að eilífu,
Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.
Hallelúja. 

Hebreabréfið 13: 1-3
Sumir hafa hýst engla án þess að vita

 1Bróðurkærleikurinn haldist. 2Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita. 3Minnist bandingjanna sem væruð þið sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða þar eð þið finnið til eins og þeir. 

Matteus 25: 31-46
Gestur var ég og þér hýstuð mig

31Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. 32Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. 33Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri. 34Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. 35Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, 36nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín. 
37Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? 38Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? 39Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? 40Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. 
41Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. 42Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, 43gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín. 
44Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? 45Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. 46Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“


Eftir að Haíti hlaut sjálfstæði, fyrst ríkja blökkumanna, studdu landsmenn íbúa annarra ríkja í frelsisbaráttu þeirra. Nýlega hafa Haítíbúar átt í alvarlegum efnahagserfiðleikum og margir þeirra haldið að heiman og lagt á sig hættulegar ferðir í von um betra líf. Í mörgum tilvikum hafa þeir mætt óvild og lagalegum hindrunum. Kirkjuráðið á Karíbasvæðinu hefur tekið þátt í því að andmæla þeim þjóðum sem vilja takmarka eða svipta Haítímenn ríkisborgararétti. 

Hugleiðing

Guð gaf Ísraelsmönnum það lögmálsboðorð að þeir skyldu bjóða útlendinga velkomna í sinn hóp. Það var gert með vísan til sögu þjóðarinnar sjálfrar, því að eitt sinn voru Ísraelsmenn sjálfir útlendingar í Egyptalandi. Endurminningin um eigin útlegð átti að vekja með þeim samúð og samstöðu við útlendinga og ókunnuga á þeirra tímum. Eins er um okkur kristna menn og þjóð Ísraels: Okkar sameiginlegu kristnu reynslu af hjálpræðisverkum Guðs tilheyrir endurminningin um fjarlægð og aðskilnað – í þeim skilningi að vera fjarlæg Guði og ríki hans. Þessi tegund kristilegrar endurminningar hefur siðferðileg afleiðingar. Guð hefur endurskapað reisn okkar í Kristi og gert okkur að borgurum í ríki sínu, ekki vegna verðleika okkar sjálfra, heldur fyrir kærleiksgjöf hans sjálfs. Við erum kölluð til að gera hið sama, skilyrðislaust og í kærleika. Kristilegur kærleikur felst í því að elska eins og Faðirinn, það er að segja að viðurkenna manngildið og veita öðrum virðingu og þar með hjálpa til við að lækna bugaða fjölskyldu mannsins.

Bæn

Eilífi Guð,
þú tilheyrir hvorki ákveðinni menningu né landi,
heldur ert þú Drottinn allsherjar.
Þú skipar okkur að bjóða útlendinga velkomna.
Hjálpa okkur með anda þínum
að lifa sem bræður og systur,
sem bjóða alla velkomna í þínu nafni,
og lifa í réttlæti ríkis þíns.
Þess biðjum við í Jesú nafni. Amen.

Hægri hönd Guðs
gróðursetur í landi okkar,
hún gróðursetur fræ frelsis, vonar og kærleika;
láttu börnin hans taka saman höndum,
í okkar margbreytilegu löndum,
og verða eitt með hægri hönd Guðs. 


2. dagur – 19. janúar:
Ekki lengur þræll heldur elskaður bróðir

 

1Mósebók 1: 26-28
Guð skapaði manninn eftir sinn mynd

26Þá sagði Guð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“
27Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.
28Guð blessaði þau. Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“

Sálm 10:1-10
Hví stendur þú fjarri, Drottinn?

1Hví stendur þú fjarri, Drottinn,
hví felur þú þig á neyðartímum?
2Hinn óguðlegi ofsækir þá snauðu með hroka,
fangar þá með ráðum sem hann hefur bruggað.
3Hinn óguðlegi gleðst í græðgi sinni,
blessar gróða sinn og lítilsvirðir Drottin.
4Hann hugsar dramblátur:
„Guð spyr einskis, enginn Guð er til.“
Þannig hugsar hann,
5honum lánast allt það sem hann færist í fang.
Dómar þínir fara hátt yfir höfði hans,
hann forsmáir alla andstæðinga sína.
6Hann hugsar með sjálfum sér: „Mér skrikar ekki fótur,
aldrei mun ógæfa henda mig.“
7Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi,
á tungu hans er illska og ranglæti.
8Hann liggur í launsátri í þorpunum,
myrðir saklausa í leynum,
augu hans skima eftir bágstöddum.
9Hann leynist sem ljón í runna,
situr um að hremma hinn snauða,
grípa hinn fátæka og fanga hann í net sitt.
10Hann hniprar sig saman, býst til stökks,
og hinn snauði fellur fyrir ofurefli hans.

Fílemonsbréfið
Ekki lengur eins og þræll, heldur þræli fremri, eins og elskaður bróðir

1Páll, bandingi Krists Jesú, og Tímóteus bróðir okkar heilsa elskuðum vini okkar og samverkamanni, Fílemon, 2svo og Appíu systur okkar og Arkippusi samherja okkar og söfnuðinum sem kemur saman í húsi þínu.
3Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 

4Ég þakka Guði mínum ávallt er ég minnist þín í bænum mínum 5því að ég heyri um trú þína á Drottni Jesú og um kærleika þinn til hinna heilögu. 6Ég bið að það sem þú átt og gefur í trúnni styrki þig til þess að skilja allt hið góða sem veitist í Kristi. 7Mikla gleði og uppörvun hef ég þegið sakir kærleika þíns því að þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu heilagra. 

8Þótt ég gæti með fullri djörfung í Kristi boðið þér að gera það sem skylt er, 9þá fer ég heldur bónarveg vegna kærleika þíns þar sem ég er eins og ég er, hann Páll gamli, og nú líka bandingi Krists Jesú. [1]

10Ég bið þig þá fyrir barnið mitt sem ég hef getið í fjötrum mínum, hann Onesímus. 11Hann var þér áður óþarfur en er nú þarfur bæði þér og mér. 12Ég sendi hann til þín aftur og er hann þó sem hjartað í brjósti mér. 13Feginn vildi ég hafa haldið honum hjá mér til þess að hann í þinn stað væri mér til hjálpar í fjötrum mínum vegna fagnaðarerindisins. 14En án þíns samþykkis vildi ég ekkert gera til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung heldur af fúsum vilja.
15Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundarsakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega, 16ekki lengur eins og þræli heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér bæði sem maður og kristinn. 17Ef þú því telur mig bróður þinn í trúnni, þá tak þú á móti honum eins og væri það ég sjálfur. 18En hafi hann eitthvað gert á hluta þinn eða sé hann í skuld við þig, þá fær þú það mér til reiknings. 19Ég, Páll, rita með eigin hendi: Ég mun greiða. Að ég ekki nefni við þig að þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig. 20Já, bróðir, unn mér gagns af þér vegna Drottins, endurnær hjarta mitt sakir Krists.
21Fullviss um hlýðni þína rita ég til þín og veit að þú munt gera jafnvel fram yfir það sem ég mælist til.
22En hafðu líka til gestaherbergi handa mér því að ég vona að þið öðlist þá bænheyrslu að fá mig aftur.

23Epafras, sambandingi minn vegna Krists Jesú, biður að heilsa þér. Sömuleiðis 24Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas, samverkamenn mínir.
25Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með anda yðar.

Lúkas 10: 25-37
Dæmisagan um miskunnsama Samverjann

25Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
26Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“
27Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
28Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“
29En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“
30Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. 31Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. 32Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. 33En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, 34gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. 35Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.
36Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“
37Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“
Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“


Mansal er nútímalegt form þrælahalds. Fórnarlömb þess eru með ofbeldi eða blekkingum þvinguð til vændis, barnaþrælkunar eða sölu líffæra. Gróðann hirða síðan þeir sem misnota þau. Þessi svívirðilegu viðskipti velta milljónum dollara um allan heim. Mansal er einnig vaxandi vandamál í löndunum við Karíba­hafið. Mótmælendakirkjurnar á svæðinu vinna saman með Heims­trúboðs­ráðinu og Trúboðsráði Norður-Ameríku að því að upplýsa kristna söfnuði og binda þar með enda á þá plágu sem mansalið er. 

Hugleiðing

Eitt af því fyrsta sem við lærum um Guð í hebresku og kristnu Biblíunni er að Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hins vegar hefur þessi djúpi og fagri sannleikur oft verið hulinn eða verið hafnað í sögu mannkyns. Til að mynda var þrælum neitað um mannlega reisn sína  í rómverska heimsveldinu. Boðskapur fagnaðarerindisins er algjörlega andstæður þessu. Jesús efaðist um gildi þeirra félagslegu viðhorfa sem drógu í efa mannlega reisn Samverja, og hann lýsti Samverjanum sem „náunga“ mannsins sem hafði verið ráðist á á veginum til Jeríkó – og náungann skyldi maður elska samkvæmt lögmálinu. Og Páll, styrktur í trúnni á Krist, segir fyrrum bandingjann Onesímus vera „kæran bróður“, en það brýtur gegn viðmiðum samfélagsins og staðfestir manngildi Onesímusar.

Kristilegur kærleiki verður alltaf að vera hugdjarfur og þora að rjúfa múrana, og sjá í öðrum það manngildi sem er jafngilt okkar. Eins og Páll postuli verða kristnir menn að sýna „fulla djörfung“ í Kristi, tala einum rómi og telja fórnarlömb mansals ótvírætt til náunga sinna, líta á þá sem kæra bræður sína og systur og vinna þannig saman að því að binda enda á nútíma þrælahald. 

Bæn

Miskunnsami Guð,
Vertu hjá þeim sem eru fórnarlömb mansals,
gef þeim fullvissu þess að þú sjáir neyð þeirra og heyrir hróp þeirra.
Sameina þú kirkju þína í samúð og hugrekki, svo að hún
megi vinna að því að dag einn verði enginn misnotaður lengur,
að allir lifi í frelsi og njóti virðingar og friðar.
Þess biðjum við í nafni hins þríeina Guðs
sem fær miklu meira áorkað en við getum beðið um
eða gert okkur í hugarlund. Amen.

Hægri hönd Guðs
reisir upp í landi okkar,
reisir upp þá sem falla,
hvern á fætur öðrum.
Hann þekkir okkur öll með nafni
og frelsar okkur undan smáninni,
með hægri hendi sinni reisir hann okkur upp. 

 

3. dagur – 20. janúar:
Líkami ykkar er musteri Heilags Anda

 

2Mósebók 3: 4-10
Guð frelsar þá sem menn hafa hneppt í ánauð

4Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ 5Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ 6Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þá huldi Móse andlit sitt því að hann óttaðist að líta Guð.
7Þá sagði Drottinn: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. 8Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi, til landsvæðis Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 9En nú er kvein Ísraelsmanna komið til mín og ég hef einnig séð hvernig Egyptar kúga þá. 10Farðu nú af stað. Ég sendi þig til faraós. Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“

Sálm 24:1-6
Drottinn, við erum þau sem þráum auglit þitt

1Davíðssálmur.
Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er,
heimurinn og þeir sem í honum búa,
2því að hann grundvallaði hana á hafinu,
festi hana á vötnunum.
3Hver fær að stíga upp á fjall Drottins
og hver fær að dveljast á hans helga stað?
4Sá sem hefur flekklausar hendur og hreint hjarta,
sækist ekki eftir hégóma
og vinnur ekki rangan eið.
5Hann hlýtur blessun frá Drottni
og réttlæti frá Guði, frelsara sínum.
6Þetta er sú kynslóð sem leitar hans,
þráir auglit þitt, Jakobs Guð. (Sela)

1Korintubréf 6:9-20
Vegsamið því Guð með líkama yðar

9Vitið þið ekki að ranglátir munu ekki erfa Guðs ríki? Villist ekki! Enginn sem er saurlífur, dýrkar falsguði eða lifir í hórdómi, enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar, 10enginn þjófur eða fégráðugur, vínsvallari, rógberi eða fjársvikari fær að erfa Guðs ríki. 11Og þannig voruð þið sumir hverjir. En þið létuð laugast, létuð helgast, eruð réttlættir. Það gerði nafn Drottins Jesú Krists og andi vors Guðs. 

12Allt er mér leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér. 13Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn en Guð mun hvort tveggja gera að engu. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann. 14Guð hefur uppvakið Drottin með mætti sínum og mun á sama hátt uppvekja okkur. 15Vitið þið ekki að líkamar ykkar eru limir Krists? Á ég þá að taka limi Krists og gera þá að skækjulimum? Fjarri fer því. 16Vitið þið ekki að sá sem liggur með skækju verður ásamt henni einn líkami? Því að ritað er: „Þau tvö munu verða einn líkami.“ 17En sá er samlagar sig Drottni er einn andi með honum.
18Forðist saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama. 19Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf. 20Þið eruð verði keypt. Vegsamið því Guð með líkama ykkar.

Matteus 18:1-7
Vei þeim sem tælir menn til falls

1Um þetta leyti komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: „Hver er mestur í himnaríki?“
2Jesús kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra 3og sagði: „Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. 4Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. 5Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér. 

6En hverjum þeim sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls. 7Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist en vei þeim manni sem veldur.


Margar kristnar kirkjur á Karíbasvæðinu hafa áhyggjur af klámi sem einkum er útbreitt á netinu. Klám hefur afar neikvæð áhrif á gildi mannsins, einkum þegar börn og ungmenni eiga í hlut. Líkt og í þrælahaldi hlutgerir það fólk, hneppir þá í fjötra sem verða háðir því og er skaðlegt heilbrigðum ástarsamböndum. 

Hugleiðing

Í annarri Mósebók birtist greinilega umhyggja Guðs fyrir þeim sem menn hafa hneppt í þrældóm. Opinberun Guðs fyrir Móse í brennandi runnanum er öflug staðfesting þess vilja hans að hann ætli sér að frelsa þjóð sína. Guð hafði séð eymd hennar, heyrt kveinstafi þeirra og steig ofan til að veita þeim frelsi. Enn í dag heyrir Guð harmakvein þeirra sem fastir eru í þrældómi og hann vill frelsa þá. Kynferðið er gjöf Guðs fyrir sambönd fólks og til að tjá ástúð og nánd. Misnotkun þessarar  gjafar með klámi hneppir menn hins vegar í þrældóm og rýrir manngildi þeirra, bæði þá sem framleiða það og þá sem neyta þess. Guð er ekki hlutlaus gagnvart eymd þeirra og kristnir menn eru kallaðir til þess að horfa sömu augum á málið.

Páll postuli segir að við séum kölluð til þess að vegsama Drottin í líkama okkar. Það merkir að öll svið lífs okkar, þar með talin sambönd okkar við aðra, eiga að vera fórnargjöf, Guði þóknanleg. Sameiginlega ber kristnum mönnum að stuðla að því að gildi mannsins varðveitist í samfélaginu og að enginn hinna tæli „smælingja“ Guðs til falls, heldur vinni miklu fremur að því að þeir geti lifað í þeim friði sem Guð hefur ætlað þeim.

Bæn

Endurnýja þú okkur á líkama og sál, Guð,
fyrir himneska náð þína.
Skapa í okkur hreint hjarta og hreinan anda
svo að við vegsömum nafn þitt.
Lát kirkju þína sameinast í viðleitni sinni,
svo að þjóð þín helgist
fyrir Jesú Krist, sem með þér lifir og ríkir
í einingu Heilags Anda,
um aldir alda. Amen.

Hægri hönd Guðs
læknar í landi okkar,
læknar það sem brast í líkama okkar og sál;
svo dásamleg er snerting hans
og kærleikur hans er mikilsverður,
því að Guð læknar okkur
með hægri hendi sinni.

 

4. dagur – 21. janúar:
Von og lækning

 

Jesaja 9: 2-7a
Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka

1Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós.
Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós.
2Þú eykur stórum fögnuðinn,
gerir gleðina mikla.
Menn gleðjast fyrir augliti þínu
eins og þegar uppskeru er fagnað,
eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.
3Því að ok þeirra,
klafann á herðum þeirra,
barefli þess sem kúgar þá
hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.
4Öll harkmikil hermannastígvél
og allar blóðstokknar skikkjur
skulu brenndar
og verða eldsmatur.
5Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
6Mikill skal höfðingjadómurinn verða
og friðurinn engan enda taka
á hásæti Davíðs
og í ríki hans.
Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,
héðan í frá og að eilífu.
Vandlæting Drottins allsherjar
mun þessu til vegar koma. 

Sálm 34:1-15
Leita friðar og legg stund á hann

1Sálmur Davíðs þá er hann gerði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek svo að Abímelek rak hann í burt og hann fór.
2Ég vil vegsama Drottin alla tíma,
ætíð sé lof hans mér í munni.
3Ég hrósa mér af Drottni,
hinir snauðu skulu heyra það og fagna.
4Vegsamið Drottin ásamt mér,
tignum nafn hans einum hug.
5Ég leitaði Drottins og hann svaraði mér,
frelsaði mig frá öllu sem ég hræddist.
6Lítið upp til hans og ljómið af gleði,
þá munuð þér aldrei roðna af skömm.
7Hér er vesæll maður sem hrópaði
og Drottinn bænheyrði hann
og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8Engill Drottins
setur vörð kringum þá sem óttast hann
og frelsar þá.
9Finnið og sjáið að Drottinn er góður,
sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.
10Óttist Drottin, þér hans heilögu,
því að þeir sem óttast hann líða engan skort.
11Ljón búa við skort og svelta
en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12Komið börn, hlýðið á mig,
ég vil kenna yður að óttast Drottin.
13Ef einhver óskar lífs,
þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14þá varðveit tungu þína frá illu
og varir þínar frá svikatali.
15Forðastu illt og gerðu gott,
leitaðu friðar og leggðu stund á hann.

Opinb 7:13-17
Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra

13Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“
14Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“
Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. 15Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. 16Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. 17Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Jóhannes 14: 25-27
Frið læt ég yður eftir

25Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. 26En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. 27Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.


Við Karíbahafið er ofbeldi vandamál sem kirkjan verður að láta sig varða. Fjöldi morða er uggvænlega mikill og er það einkum af völdum heimilisofbeldis, baráttu glæpahópa og annars konar afbrota. Að auki hefur sjálfsskaði og sjálfsmorð færst í aukana á sumstaðar á svæðinu.

Hugleiðing

Ríkið sem Guð gaf fyrirheit um, ríkið sem Jesús boðaði og sést í verkum hans, er ríki réttlætis, friðar og gleði í Heilögum Anda. Hvað merki þessi gleðiboðskapur þeim sem eru fangar í myrkri ofbeldis? Í hugsýn spámannsins skín ljós yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna.  En hvernig getum við, kristnir menn, fært þeim ljós Jesú sem búa við myrkur heimilis­ofbeldis og baráttu glæpagengja? Hvað von hafa kristnir að bjóða þeim? Það er sorglegur raunveruleiki að þessi klofningur kristinna manna  er „andstætt tákn“ sem varpar skugga á boðskap vonarinnar.

Sóknin eftir friði og sáttum milli mismunandi kirkna og deilda vísar hins vegar í aðra átt.  Þegar kristnir menn leita eftir friði og sátt í heimi sem er fullur af ágreiningi, sýna þeir heiminum sáttamerki. Kristnir menn sem hafna rökum sérhagsmuna og metorða og vilja ekki niðurlægja aðra menn og samfélög þeirra, bera vitni um frið Guðs ríkis, þar sem Lambið leiðir hina heilögu til uppsprettunnar, þaðan sem vatn lífsins streymir fram. Þetta er friðurinn sem heimurinn þarfnast, friður sem færir lækningu og huggun þeim sem þjást sakir ofbeldis.

Bæn

Guð vonar og huggunar,
upprisa þín hefur sigrað ofbeldi krossins.
Ger þú okkur, þjóð þína,
að sýnilegu tákni þess
að ofbeldi heimsins mun lúta í lægra haldi.
Þess biðjum við, í nafni hins upprisna Drottins okkar.
Amen.

Hægri hönd Guðs vísar í landi okkar,
hún vísar þann veg sem Guð vill að við göngum.
Hversu mikið sem myrkrið kann að vera,
og þó að við kunnum að villast af leið,
þá mun hægri hönd Guðs vísa okkur heim.

 

5. dagur – 21. janúar:
Heyr, kvein þjóðar minnar hljómar úr fjarlægu landi 

 

5Mósebók 1:19-35
Drottinn Guð yðar, sem fyrir yður fer

19Því næst héldum við af stað frá Hóreb og fórum gegnum alla þessa miklu og skelfilegu eyðimörk sem þið hafið sjálf séð. Við fórum áleiðis til fjalllendis Amoríta eins og Drottinn, Guð okkar, hafði boðið. Þegar við komum til Kades Barnea 20sagði ég við ykkur: „Nú eruð þið komin að fjalllendi Amoríta sem Drottinn, Guð okkar, gefur okkur. 21Sjá! Drottinn, Guð þinn, hefur fengið þér landið í hendur. Farðu þangað og taktu það til eignar eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefur boðið þér. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast!“
22Þá komuð þið öll til mín og sögðuð: „Við skulum senda nokkra menn á undan okkur til þess að kanna landið fyrir okkur. Þeir geta síðan lýst leiðinni, sem við eigum að fara, og borgunum sem við eigum að fara inn í.“ 23Mér féll þetta vel í geð og valdi úr hópi ykkar tólf menn, einn úr hverjum ættbálki. 24Þeir héldu á leið til fjalllendisins og fóru upp í Eskóldal og könnuðu hann. 25Þeir tóku með sér nokkuð af ávöxtum landsins og færðu okkur og sögðu: „Það er gott land sem Drottinn, Guð okkar, gefur okkur.“ 

26En þið neituðuð að fara þangað upp eftir og risuð gegn boðum Drottins, Guðs ykkar. 27Þið mögluðuð í tjöldum ykkar og sögðuð: „Drottinn leiddi okkur út úr Egyptalandi af því að hann hatar okkur. Hann ætlar að selja okkur Amorítum í hendur svo að þeir tortími okkur. 28Hvert erum við að fara? Bræður okkar gerðu okkur skelfingu lostin. Þeir segja þjóðina hærri vexti og fjölmennari en okkur, borgirnar miklar og girtar múrum sem gnæfa við himin, og segjast auk þess hafa séð Anakíta þar.“
29Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. 30Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. 31Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ 32En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, 33sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.
34Þegar Drottinn heyrði það sem þið sögðuð reiddist hann og sór: 35„Enginn af þessari illu kynslóð skal fá að sjá landið góða, sem ég sór að gefa forfeðrum ykkar, 36nema Kaleb Jefúnneson, hann skal sjá það. Ég mun gefa honum og sonum hans landið sem hann hefur stigið á því að hann hefur fylgt Drottni heils hugar.“

Sálm 145:9-11
Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga

9Drottinn er öllum góður
og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.
10Öll verk þín lofa þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir vegsama þig.
11Þeir segja frá dýrð ríkis þíns
og tala um mátt þinn

Jakobsbréfið 1:9-11
Hinn auðugi mun líða undir lok eins og blóm á engi

9Sá sem er lágt settur hrósi sér af upphefð sinni, 10auðmaðurinn af allsleysi sínu því að hann mun líða undir lok eins og blóm á engi. 11Sólin kemur upp með steikjandi hita og svíður grasið og blóm þess fellur og fegurð þess verður að engu. Þannig mun og auðugur maður visna upp á vegum sínum.

Lúkas 18:35-43
Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!

35Svo bar við, er Jesús nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði. 36Hann heyrði að mannfjöldi gekk hjá og spurði hvað um væri að vera.
37Var honum sagt að Jesús frá Nasaret færi hjá.
38Þá hrópaði hann: „Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!“
39En þeir sem á undan fóru höstuðu á hann að hann þegði. En hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“
40Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær spurði Jesús hann: 41„Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“
Hinn svaraði: „Drottinn, að ég fái aftur sjón.“
42Jesús sagði við hann: „Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér.“
43Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.


 

Karabíska hagkerfið hefur jafnan verið byggt á framleiðslu á hráefnum fyrir evrópska markaði og hefur því aldrei verið sjálfbært. Þar af leiðandi varð lántaka á alþjóðlegum markaði mikilvæg fyrir þróunina. Skilyrði slíkrar lántöku valda lækkun á framlagi til samgangna, menntunar, heilbrigðisþjónustu og annarrar opinberrar þjónustu, sem kemur verst niður á fátækum. Ráðstefna kirkna á Karibísku eyjunum hefur hleypt af stokkunum frumkvæði til að takast á við núverandi skuldakreppu á svæðinu og í gegnum alþjóðleg sambönd þeirra til að koma fátækum til hjálpar.

Hugleiðing

Við getum ímyndað okkur háreisti mannfjöldans þegar Jesús kemur til Jeríkó. Margar raddir yfirgnæfa ákall blinda betlarans.  Hann truflar og er til vandræða. En þrátt fyrir uppþotið heyrir Jesús rödd hins blinda manns, eins og Guð heyrir alltaf hróp hinna fátæku í hebresku ritningunum. En Drottinn sem styður alla þá, er ætla að hníga, heyrir ekki aðeins, hann svarar líka. Þannig tekur líf betlarans róttækum breytingum.

Missætti kristinna manna getur orðið hluti af ógn og óreiðu heimsins. Eins og deilandi raddir fyrir utan múra Jeríkóborgar, getur ósætti okkar yfirgnæft raust hinna fátæku. En þegar við erum sameinuð verðum við betri fulltrúar Krists í heiminum, heyrum, hlustum og svörum betur. Frekar en að magna upp ágreiningsefnin, getum við sannarlega hlustað og skynjað þær raddir sem nauðsynlega þurfa að heyrast.

Bæn

Elskandi Guð,
þú styður alla þá, er ætla að hníga
og endurheimtir reisn þeirra.
Hlýð á ákall okkar fyrir hina fátæku heimsins,
endurnýja von þeirra og hef þá upp,
svo að öll þjóð þín megi vera ein heild.
Þess biðjum við í Jesú nafni.
Amen.

Hægri hönd Guðs
reisir upp í landi okkar,
reisir upp þá sem falla,
hvern á fætur öðrum.
Hann þekkir okkur öll með nafni
og frelsar okkur undan smáninni,
með hægri hendi sinni reisir hann okkur upp.

 

6. dagur – 23. janúar:
Lítum á hagsmuni annarra

 

Jesaja 25:1-9
Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!

1Drottinn, þú ert minn Guð.
Ég vegsama þig, ég lofa nafn þitt
því að þú hefur unnið furðuverk,
framkvæmt löngu ráðin ráð
sem í engu brugðust.
2Því að þú gerðir borgina að grjóthrúgu,
hið rammgera virki að rúst,
hyllir hrokafullra eru ekki framar virki,
það verður aldrei endurreist.
3Þess vegna mun voldug þjóð heiðra þig,
borg ofstopafullra þjóða sýna þér lotningu,
4því að þú varst vörn lítilmagnans,
vörn hins þurfandi í þrengingum hans,
skjól í skúrum, hlíf í hita.
Andi ofríkismanna er eins og kuldaskúrir að vetri,
5breyskja í skrælnuðu landi.
Þú lægir háreysti hrokafullra.
Eins og breyskja hverfur fyrir skugga af skýi
hljóðnar söngur ofríkismannanna.
6Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
7Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
8mun hann afmá dauðann að eilífu.
Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
9Á þeim degi verður sagt:
Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans
10því að hönd Drottins mun hvíla á þessu fjalli. 

Sálm 82
Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra

1Asafssálmur.
Guð stendur á guðaþingi,
hann heldur dóm meðal guðanna.
2„Hve lengi ætlið þér að dæma ranglega
og draga taum óguðlegra? (Sela)
3Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra,
látið þjáða og snauða ná rétti sínum,
4bjargið bágstöddum og snauðum,
frelsið þá úr hendi óguðlegra.“
5Þeir hafa hvorki skyn né skilning,
þeir ráfa í myrkri.
Allar undirstöður jarðar riða.
6Ég sagði: „Þér eruð guðir,
allir saman synir Hins hæsta
7en samt munuð þér deyja sem menn,
falla sem einn af höfðingjunum.“
8Rís upp, Guð, dæm þú jörðina
því að allar þjóðir eru eign þín. 

Filippíbréfið 2:1-4
Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra

1Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð 2gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. 3Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. 4Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.

Lúkas 12:13-21
Gætið yðar, og varist alla ágirnd

13Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“
14Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ 15Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“
16Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. 17Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. 18Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. 19Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
20En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? 21Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“


Breytingar á alþjóðlegum bankareglum heldur áfram að hafa neikvæð áhrif á viðskipti og verslun Karabísku eyjanna og ógna efnahagslegri afkomu margra fjölskyldna. Það hefur orðið sífellt erfiðara fyrir karabískt fólk sem vinnur erlendis að senda peninga til fjölskyldna sinna. Kirkjurnar í Karíbisku löndunum settu á stofn lánastofnun til þess að fátækir hafi aðgang að fjármagni fyrir atvinnustarfsemi. 

Hugleiðing

Vitnisburður ritningarinnar staðfestir að Guð kýs ávallt að sinna hinum fátæku framar öðrum. Hægri hönd Guðs styrkir hina valdalausu gegn hinum máttugu. Á sama hátt varar Jesús stöðugt við hættu græðginnar. Þrátt fyrir þessar viðvaranir smitar synd græðginnar oft kristin samfélög okkar og innleiðir samkeppnisanda: Eitt samfélag keppir á móti öðru. Við verðum að hafa í huga hvaða afleiðingar það hefur ef við greinum okkur ekki frá heiminum og sundrandi samkeppnisanda. Þá  hættum við að vera  „vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum.“

Að vera ríkur í augum Guðs er fyrir hinar ýmsu  kirkjur okkar og játningar,  ekki fólgið í fjölda safnaðarfólks eða hve margir styrkja samfélagið fjárhagslega. Það er miklu frekar að við gerum okkur grein fyrir því að við eigum óteljandi kristna bræður og systur um allan heim, sameinuð þrátt fyrir efnahagslegan mun milli Norðurs og Suðurs. Meðvituð um þetta bræðralag í Kristi, getur kristið fólk tekið þátt í að stuðla að efnahagslegu réttlæti fyrir alla.

Bæn

Almáttugi Guð,
gef kirkju þinni  hugrekki og styrk
til að boða stöðugt réttlæti og réttsýni
þar sem kúgun og undirokun ráða ríkjum.
Við fögnum einingu okkar í Kristi,
og biðjum að Heilagur Andi hjálpi okkur
að skynja þarfir annarra.
Amen.

Hægri hönd Guðs
strýkur í landi okkar,
strýkur brott öfund, hatur, ágirnd,
eigingirni, slæmar girndir.
Þar sem stolt og óréttlæti er að finna,
þar réttir Guð okkur hægri hönd sína.

 

7.  dagur – 24. janúar:
Stuðningur við fjölskylduna, bæði heima og í kirkjunni

 

2Mósebók 2: 1-10
Fæðing Móse

1Maður nokkur af ætt Leví fór og tók sér eiginkonu af sömu ætt. 2Konan varð þunguð og eignaðist son. Þegar hún sá hve efnilegur hann var faldi hún hann í þrjá mánuði. 3Þegar hún gat ekki leynt honum lengur fékk hún sér körfu úr sefi handa honum. Hún þétti hana með biki og tjöru, lagði drenginn í hana og setti körfuna út í sefið við árbakkann. 4En systir hans stóð þar álengdar til að fylgjast með hvað um hann yrði.
5Þá gekk dóttir faraós niður að ánni til að baða sig en þjónustustúlkur hennar gengu eftir árbakkanum. Hún kom auga á körfuna í sefinu og sendi þjónustustúlku sína eftir henni. 6Þegar hún opnaði körfuna sá hún grátandi dreng í henni. Hún vorkenndi honum og sagði: „Þetta er einn af hebresku drengjunum.“ 7Þá spurði systir hans dóttur faraós: „Á ég að fara og kalla á hebreska brjóstmóður fyrir þig?“ 8Dóttir faraós svaraði: „Já, gerðu það.“ Stúlkan fór og kallaði á móður drengsins. 9Dóttir faraós sagði við hana: „Farðu með þennan dreng og hafðu hann á brjósti fyrir mig og ég skal launa þér það.“ Konan fór með drenginn og hafði hann á brjósti. 10Þegar drengurinn stálpaðist fór hún með hann til dóttur faraós sem tók hann í sonar stað. Hún gaf honum nafnið Móse og sagði: „Því að ég dró hann upp úr vatninu.“

Sálm 127
Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis

1Helgigönguljóð. Eftir Salómon.
Ef Drottinn byggir ekki húsið
erfiða smiðirnir til ónýtis.
Ef Drottinn verndar eigi borgina
vakir vörðurinn til ónýtis.
2Það er yður til einskis
að rísa upp árla og ganga seint til hvílu
og eta brauð sem aflað er með striti:
Svo gefur Drottinn ástvinum sínum í svefni.
3Synir eru gjöf frá Drottni,
ávöxtur móðurlífsins er umbun.
4Eins og örvar í hendi kappans
eru synir getnir í æsku.
5Sæll er sá maður er fyllt hefur örvamæli sinn með þeim.
Þeir verða eigi til skammar
er þeir flytja mál gegn óvinum sínum í borgarhliðinu. 

Hebreabréf 11: 23-24
Fyrir trú leyndu foreldrar Móse …  af því að þau sáu, að sveinninn var fríður

23Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans af því að þeir sáu að sveinninn var fríður og létu eigi skelfast af skipun konungsins. 24Fyrir trú hafnaði Móse því er hann var orðinn fulltíða maður að vera talinn dóttursonur faraós 25og kaus fremur að þola illt með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.

Matteus 2: 13-15
Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands

13Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“
14Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. 15Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“


 

Við Karíbahafið þjáist fjölskyldan allt til þessa dags vegna arfleifðar þrælahalds og nýrra þátta eins og fólksflutninga foreldra, fjárhagsvandamála og heimilis­ofbeldis. Í ljósi þessara staðreynda veita kirkjur Karabísku eyjanna bæði smærri og stærri fjölskyldum aðstoð.

Hugleiðing

Fjölskyldur eru mikilvægar fyrir vernd og uppeldi barna. Frásagnir Biblíunnar af barnæsku Móse og Jesú sýna að báðir voru þeir í lífshættu  frá fæðingu þar sem reiðir valdhafar höfðu gefið fyrirmæli um morð.

Þannig sýnir Biblían hve fljótt börn geta verið í hættu vegna utanað­komandi þátta. Þessar frásagnir sýna einnig hvernig hægt er að grípa til aðgerða til að vernda slík börn. Matteus kynnir okkur fyrirmynd föðurins sem í kærleika er tryggur boðorðum Guðs, einkum á óróa­tímum.

Biblían lítur á börnin sem blessun og framtíðarvon. Fyrir sálmaskáldið eru þau „eins og örvar í hendi kappans.“ Kristið fólk er kallað til að lifa eins og ein fjölskylda þar sem hver styður annan. Jafnframt  treystir það á þann styrk sem Drottinn gefur til að byggja upp traust samfélag þar sem börn eru vernduð og geta blómstrað.

Bæn

Miskunnsami  Guð,
þú sendir son þinn til að fæðast í venjulegri fjölskyldu
með forfeður sem voru bæði trúaðir og syndugir.
Við biðjum blessun þína fyrir allar fjölskyldur
á heimilum þeirra og í samfélaginu.
Við biðjum sérstaklega fyrir einingu kristinnar fjölskyldu
svo að heimurinn megi trúa.
Við biðjum í Jesú nafni.
Amen.

Hægri hönd Guðs
ritar í landi okkar,
ritar í mætti og kærleika
þar sem ósætti og angist ríkir,
alla gleði okkar og nauðir,
allt það ritar hægri hönd Drottins.

 

8. dagur – 25. janúar:
Hann mun safna dreigðum … frá fjórum hornum jarðarinnar

 

Jesaja 11:12-13
Þá mun öfund Efraíms hverfa. Júda ekki fjandskapast við Efraím

12Hann mun reisa gunnfána fyrir þjóðirnar
til að safna saman hinum útlægu Ísraelsmönnum
og stefna saman dreifðum íbúum Júda
frá heimshornunum fjórum.
13Þá mun öfund Efraíms hverfa
og fjandskapur Júda dvína.
Efraím mun ekki öfunda Júda
og Júda ekki fjandskapast við Efraím.

Sálm 106:1-14, 43-48
Safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn

1Hallelúja.
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
2Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins,
kunngjört allan lofstír hans?
3Sælir eru þeir sem gæta réttarins,
sem iðka réttlæti alla tíma.
4Minnstu mín, Drottinn,
er þú miskunnar lýð þínum,
vitja mín með hjálpræði þínu.
5Lát mig sjá heill þinna útvöldu,
gleðjast með þjóð þinni
og fagna með eignarlýð þínum.
6Vér höfum syndgað eins og feður vorir,
höfum breytt illa og óguðlega.
7Feður vorir í Egyptalandi gáfu ekki gaum að undrum þínum,
minntust ekki mikillar miskunnar þinnar
en risu gegn Hinum hæsta við Sefhafið.
8Hann bjargaði þeim vegna nafns síns
til að kunngjöra mátt sinn.
9Hann hastaði á Sefhafið og það þornaði,
leiddi þá yfir djúpin eins og um eyðimörk.
10Hann bjargaði þeim úr greipum hatursmanna þeirra,
leysti þá úr óvinahöndum.
11Vötnin huldu ofsækjendur þeirra,
enginn þeirra komst undan.
12Þá treystu þeir orðum hans
og sungu honum lof.
13En þeir gleymdu fljótt verkum hans,
biðu ekki ráða hans.
14Þeir fylltust græðgi í eyðimörkinni
og freistuðu Guðs í auðninni. 

43Hvað eftir annað bjargaði hann þeim
en þeir þrjóskuðust gegn ráðum hans
og sukku dýpra í synd sína.
44Hann leit til þeirra í neyðinni
þegar hann heyrði kvein þeirra.
45Hann minntist sáttmála síns við þá,
aumkaðist yfir þá vegna mikillar miskunnar sinnar
46og lét þá finna miskunn
hjá öllum þeim sem höfðu flutt þá í útlegð.
47Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor,
og safna oss saman frá þjóðunum,
svo að vér getum lofað þitt heilaga nafn
og fagnandi sungið þér lof.
48Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð,
frá eilífð til eilífðar.
Allur lýðurinn segi: Amen.
Hallelúja. 

Efesusbréfið 2:13-19
Hann reif niður vegginn

13Nú þar á móti eruð þið, sem eitt sinn voruð fjarlægir, nálægir orðnir í Kristi fyrir blóð hans. 14Því að hann er friður okkar. Hann gerði heiðingja og Ísraelsmenn að einum, hann reif niður vegginn sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með lífi sínu og dauða 15afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum. 16Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð með því að deyja á krossi þar sem hann deyddi fjandskapinn. 17Og hann kom og boðaði ykkur frið sem fjarlægir voruð, og frið hinum sem nálægir voru. 18Því að fyrir hans tilverknað getum við hvor tveggja nálgast föðurinn í einum anda.
19Þess vegna eruð þið ekki framar gestir og útlendingar heldur eruð þið samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.

Jóhannes 17: 1-12
Í þeim er ég dýrlegur orðinn

1Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: „Faðir, stundin er komin. Ger son þinn dýrlegan til þess að sonurinn geri þig dýrlegan. 2Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum að hann gefi eilíft líf öllum þeim sem þú hefur gefið honum. 3En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist. 4Ég hef gert þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk sem þú fékkst mér að vinna. 5Faðir, ger mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð sem ég hafði hjá þér áður en heimur var til.
6Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð. 7Þeir vita nú að allt sem þú hefur gefið mér er frá þér 8því ég hef flutt þeim þau orð sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni að ég er frá þér út genginn, og trúa því að þú hafir sent mig.
9Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir 10og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. 11Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. 12Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist.


Karabísku kirkjurnar vinna saman að því að lækna þau sár sem nýlendustefnan olli á líkama Krists á svæðinu. Sættir krefjast oft iðrunar, skaðabóta og að minningarnar læknist. Eitt dæmi er formleg afsökunarbeiðni og miskabætur milli Baptista í Bretlandi og Karíbahafi. Eins og Ísraelsþjóðin er kirkjan kölluð til einingar þess að að vera bæði tákn sátta og leggja sitt af mörkum til að koma  á sáttum.

Hugleiðing

Í frásögn Biblíunnar af  frelsunarsögunni er að finna ótvírætt leiðarstef: Það er hin einstaka ákvörðun Drottins að safna saman þjóð, sem hann gæti kallað sína eigin. Slík þjóð – sameinuð í heilögum sáttmála við Guð – er nauðsynleg í  frelsunaráætlun Drottins, honum til dýrðar og helgunar nafns hans.

Spámennirnir minna Ísrael sífellt á að sáttmálinn krafðist þess að sambönd milli ýmissa félagslegra hópa yrðu að einkennast af réttlæti, samúð og miskunnsemi. Þegar Jesús var reiðubúinn til að innsigla nýja sáttmálann í eigin blóði, var einlæg bæn hans til Föðurins sú að þeir sem Faðirinn hafði gefið honum væru eitt, eins og hann og Faðirinn voru eitt. Þegar kristnir menn uppgötva einingu sína í Jesú, eignast þeir hlutdeild í dýrð Krists í návist Föðurins, sömu dýrð sem hann hafði í nærveru Föðurins áður en heimurinn varð til. Þannig á  þjóð Guðs alltaf að leitast við að vera sátt samfélag – samfélag sem sjálft er skilvirkt tákn fyrir allar þjóðir jarðarinnar og sýnir hvernig á að lifa í réttlæti og í friði.

Bæn

Drottinn,
við biðjum auðmjúklega að með náð þinni
megi kirkjur um allan heim
verða verkfæri friðar þíns.
Lát þær verða vitni og þjóna kærleika þíns
sem vinna saman að því að boða
lækningu og sátt meðal stríðandi þjóða
og þannig helga og vegsama nafn þitt.
Amen.

Hægri hönd Guðs
sáir í landi okkar,
sáir frelsi, von og kærleika.
Í okkar margbreytilegu löndum
bindumst við friðarböndum
og sameinumst fyrir hægri hönd Guðs.

 

Sálmur við þema vikunnar:
Þú réttir fram hönd

Þú réttir fram hönd

Lag: The right hand of God

Þú réttir fram hönd til hjálpar, Drottinn minn,
heyrir bæn og ákall fólks í neyð.
Þú þekkir sorg og tár,
þú þjáning hlaust og sár,
kom og þrautir lina, faðm mót oss breið.
 

Þú réttir fram hönd og skráir, Skapari,
sögu fólks sem mengar þína jörð.
Þú sem að réttar krefst
þar ranglæti við hefst,
þú oss ritar dóm þinn í sviðinn svörð.
 

Þú réttir fram hönd, leiðréttir, Frelsari,
rangindin öll, illsku, hatur, stríð.
Sjálfselsku hindra þú
og efldu með oss trú
að þú öllu snýrð til góðs svo um síð.
 

Þú réttir fram hönd að leiða, Lausnari,
lýð þinn réttan veg sem hirðir hjörð.
Í þoku er vor leið
og engan veginn greið,
en þú einn oss leiðir fram ófær skörð.
 

Þú réttir fram hönd með gæsku græðarans,
gefur þjóðum jarðar nýja von.
Þú snertir heimsins mein,
þín máttar orðin ein
lækna mannkyn helsjúkt, þú einn Guðs son.
 

Þú réttir fram hönd að sá sem sáðmaður,
sáir frelsi, von og ást um lönd.
Þú sameinar börn þín
að sól réttlætis skín,
tengir saman fólk við þig hönd í hönd.

Þú réttir fram hönd til hjálpar, Drottinn minn,
hefur oss upp niðurlæging úr.
Þú þekkir hvern einn mann,
með nafni nefnir hann,
ástar njótum þinnar, því þú ert trúr.
 

Þín hægri hönd vinnur máttarverk, ó Guð,
verk þín lofa þig um alla jörð.
Þín hægri hönd er sterk
og stórvirki þín merk,
þér því syngjum við lof- og þakkargjörð.
 

Ísl. þýðing eftir Guðmund Guðmundsson
á texta eftir Patrick Prescod
Tónlist eftir Noel Dexter frá Jamaik
.