Landsmót æskulýðsfélaga 2017 á Selfossi 20. – 22. okt.

Nánari upplýsingar á vefsíðu ÆSKÞ
Nú er undirbúningur hafin að landsmóti ÆSKÞ sem haldið verður á Selfossi dagana 20.-22. október n.k. Landsmót er frábær vettvangur fyrir ungt fólk til að kynnast starfi kirkjunnar og láta gott af sér leiða. Landsmót ÆSKÞ hefur verið stækkandi viðburður síðastliðin ár þar sem fjöldi þátttakenda, sjálfboðaliða og starfsmanna hefur verið i kringum 600-700 talsins. Það er að mörgu að huga þegar kemur að skipulagningu landsmóts og margir sem leggja sitt á vogarskálarnar svo að landsmót geti orðið að veruleika ár hvert, landsmótsnefnd ÆSKÞ, sjálfboðaliðar og síðast en ekki síst, unglingarnir sem sækja mótið.
Að skipuleggja ferð á landsmót getur verið góð leið til að byggja upp æskulýðsstarf og hvati fyrir unglinga sem klára fermingarfræðslu að áframhaldandi starfi innan kirkjunnar að fermingu lokinni.
Við þekkjum það sem höfum starfað með unglingum á kirkjulegum vettvangi að það getur reynst erfitt að halda unglingunum áfram í æskulýðsstarfi eftir að þau hafa lokið fermingarfræðslu. Það er mikilvægt að unglingar finni að þeir eigi athvarf innan kirkjunnar og hafi tilgang í kirkjulegu starfi og upplifi sig hluta af samfélaginu sem þau búa í. Það er hlutverk kirkjunnar að finna ungmennum tilgang á kirkjulegum vettvangi og mjög mikilvægt markmið þegar horft er til framtíðar safnaðaruppbyggingar.
Í fermingarfræðslunni fáum við tækifæri til að mynda tengsl við unglingana og foreldra þeirra og virkja þau til starfa innan kirkjunnar í tengslum við fermingarfræðsluna. Þetta eru dýrmæt sóknarfæri sem hægt er að tengja inn í æskulýðsfélögin. Þar sem æskulýðsfélög eru starfandi með reglulegum samverustundum þar eru meiri líkur á að unglingarnir haldi áfram að sækja kirkjuna þegar fermingar “skyldunni” er lokið.
Við vitum að það getur verið erfitt að byggja upp æskulýðsfélag þar sem lítil eða engin hefð er fyrir slíku starfi. Þess vegna viljum við hjá ÆSKÞ bjóða aðildarfélögum okkar upp á hugmyndir af 10 samverum sem hægt er að nota til stuðnings eða hliðsjónar við skipulagningu æskulýðsstarfs. Ferð á landsmót gæti þar verið gulrót í starfinu.
Þema mótsins í ár verður umhverfisvitund og því verður hluti samveranna með þann undirtón. Mótið fer fram í lok október, en ljóst er að undirbúningur fyrir ferðina þarf að hefjast í það minnsta 6 vikum fyrr eða í byrjun september. Það er auðvitað mikill kostur ef hægt er að hefja undirbúning fyrir landsmót tímanlega, að vori eða í byrjun hausts.
Það er von okkar að þessar upplýsingar ásamt hugmyndum af samverum, auðveldi ykkur undirbúninginn fyrir landsmót. Endilega hafið samband ef þið eruð með ábendingar eða fyrirspurnir.
Bestu kveðjur,
Jónína Sif , framkvæmdastjóri ÆSKÞ, Ása Laufey Sæmundsdóttir, landsmótsstjóri og Eva Björk Valdimarsdóttir, formaður ÆSKÞ