Hjálparstarf kirkjunnar birtir starfskýrslu sína 2016-2017

Starfskýrsla Hjálparstarfs kirkjunnar 2016-2017 er komin út og gefur góðar upplýsingar um starfið á árinu. Aðalfundur Hjálparstarfsins verður laugardaginn 23. september í Reykjavík. Prófastsdæmið og nokkrir söfnuðir á Norðaustulandi eiga fulltrúa á fundinum. Sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, og Finnur Baldursson, eru fulltrúar prófastdæmisins og taka gjarnan við ábendingum fyrir fundinn. Skýrslan á Pdf-formi.

Formáli úr starskýrslunni – Aðstoð í neyð og hjálp til sjálfshjálpar

Hjálparstarf kirkjunnar leggur lóð sín á vogarskálarnar til þess að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun náist fyr- ir árið 2030. Áskoranirnar eru hins vegar risavaxnar og margslungn- ar; ójöfnuður innan og milli samfélaga, loftslagsbreytingar, vatns- skortur, fæðuóöryggi, vannæring, ófriður og vaxandi fjöldi flóttafólks í heiminum.

Hjálparstarfið, sem er sjálfseignarstofnun, starfrækir mannúðar- og hjálparstarf í nafni íslensku þjóðkirkjunnar jafnt innanlands sem utan og fræðir íslenskan almenning um það á ýmsum vettvangi. Sem kirkjutengd stofnun nýtur Hjálparstarfið þeirrar sérstöðu að byggja á grasrótarstarfi í nærsamfélaginu en meginmarkmið eru bætt lífskjör þeirra sem búa við fátækt og að mannréttindi séu virt.

Innanlands starfa félagsráðgjafar Hjálparstarfsins með prestum og djáknum, félagsþjónustu sveitarfélaga, öðrum mannúðarsamtök- um, stofnunum og ráðuneytum að úrlausn verkefna en ekkert er skipulagt án þess að notendur þjónustunnar hafi verið hafðir með í ráðum og öll aðstoð er hjálp til sjálfshjálpar.

Í mannúðaraðstoð og þróunarsamvinnu liggur styrkur Hjálparstarfs- ins í samvinnu við hjálparstofnanir sem þekkja staðhætti á verk- efnasvæðum. Þær þekkja söguna og menninguna en það auð- veldar skipulagningu og útfærslu aðstoðar og þær eru áfram á svæðinu eftir að alþjóðlegri aðstoð lýkur og geta mælt árangur hennar. Þá er alþjóðlegt Hjálparstarf kirkna unnið í náinni samvinnu við hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna og eftir ströngustu stöðl- um um faglegt hjálparstarf.

Um starfið frá júlí 2016 – júní 2017 er fjallað hér i skýrslunni en nánar um hvert verkefni fyrir sig er að finna í netskýrslu á heimasíðu Hjálparstarfsins www.help.is.