Ræða sr. Bolla Péturs í Laufási við þingsetningu

Sr. Bolli Pétur Bollason sóknarprestur í Laufási var fengin til þess að predika yfir Alþingimönnum við setningu Alþingis í Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Predikun sr. Bolla Péturs má lesa hér fyrir neðan. (Frétt frá 641.is Fréttir úr Þingeyjarsýslu). Hægt er að hlusta á ræðuna á ruv.is.

Bolli-Pétur-og-Alþingi-sept-2017

Sr. Bolli Pétur Bollason í ræðustóli í Dómkirkjunni

Hver er óvinur þinn ?

„Elskið óvini yðar“

Hver er óvinur þinn? Veistu það?

Er það náunginn sem sagði þér til syndanna á Facebook? Eru það fjölmiðlarnir? Er það ástvinur sem brást, ást-brást, oft þunnur þráður á milli? Er það maðurinn sem fékk uppreist æru sinnar? Er það sá sem keyrði niður saklausa borgara á fjölförnum stað?

Er það kannski þú sjálfur eða sjálf, draugar fortíðar þinnar, gömul og ný áföll sem ekki hefur verið unnið úr, er það kvíðahnúturinn fyrir morgundeginum og verkefnum framundan? Er það Guð eða er það djöfullinn sjálfur? Hvað með tómið, eyðimörk hugans? Kann að vera að það sé síðan bara eitthvað allt annað? Ekki þó segja mér að þú eigir engan óvin, það hljómar eins og hugljúf og meinlaus Hollywood kvikmynd, verum raunsæ.

Ég er ekki frá því að það þurfi að ígrunda þetta boð Jesú úr fjallræðu hans afar vel áður en ráðist er í framkvæmd. Það er skrambanum þyngra að elska óvin sinn, má greina þó örlitla von sé tilfinning vanmáttar til staðar, að ég tali nú ekki um blessað æðruleysið.

„Elskið óvini yðar.”

Það var nokkuð skýrt hverjir voru óvinirnir í þeim aðstæðum sem Jesús talaði inn í á sínum tíma í hinni merku fjallræðu. Gyðingar voru sem sagt Guðs útvalda þjóð og ögrunin fólst þá einkum í því að elska þau sem stóðu þar fyrir utan sem voru heiðingjarnir, þetta var svona við og hinir. Þess vegna hefur það komið sem þruma úr heiðskíru lofti þegar Jesús bað fólk um að elska óvini sína. Það rímaði reyndar vel við það markmið hans að leita hins týnda og frelsa það, góði hirðirinn.

Enn verðum við þó vitni að rótgrónum deilum fyrir botni Miðjarðarhafs, enn er verið að kljást við óvininn, og enn eru boð Jesú úr fjallræðunni því sannarlega í gildi, og enn á manneskjan eftir margt ólært. Hugsum okkur land eins og Norður-Kóreu sem einkennist vægast sagt af einkennilegri og einangraðri heimssýn þar sem allir útlendingar eru óvinir.
Yeonmi Park frá Norður-Kóreu flúði heimaland sitt 13 ára gömul. Hún flutti stórmerkilega sögu sína um daginn fyrir fullum hátíðarsal Háskóla Íslands.

Þar greindi hún frá ógnarstjórninni hryllilegu, síendurteknum mannréttindabrotum, frá líkunum sem hrönnuðust upp fyrir utan sjúkrastofnanir, frá rottunum sem átu líkin og fólkinu sem át rotturnar.

Þegar óvinurinn er þess eðlis að hann býður ekki upp á neitt elskutal vegna þess að hann er í viðjum hroka og þeirrar valdsmennsku er elur á ótta þá er það eina í stöðunni að stíga fram í hógværð og æðruleysi eins og Yeonmi Park, sem rétt náði upp fyrir púltið í hátíðarsalnum, og gera heiminum grein fyrir afleiðingum fyrrnefndrar valdsmennsku og biðja þess að fólk gefi fórnarlömbum smá pláss í hugsunum sínum og gjörðum.

„Ef þið hafið pláss fyrir velferð dýra, jafnrétti kynjanna og loftslagsbreytingar, þá vona ég þið hafið líka pláss fyrir fólkið í Norður-Kóreu.“ Sagði hún.

Í þessu samhengi er ágætt að minna á þau sannindi sem sumum kann að þykja klisjukennd að viljir þú gera breytingar og hafa jákvæð áhrif á umheiminn er hvað best að byrja á sjálfum sér. Það er kannski engin tilviljun að Jesús í samskiptum sínum við fólk fékk það til að kannast við sjálft sig áður en lengra var haldið. Það gerði hann bæði með atferli sínu, orðum, og dæmisögunum snjöllu.

Sem dæmi þegar lögvitringur nokkur vildi réttlæta sjálfan sig og spurði Jesú hver væri náungi hans sagði Jesús honum söguna um Miskunnsama samverjann sem við vonandi öll könnumst við og er sígild er kemur að umræðunni um náungaábyrgð. Megi sú saga lifa meðal komandi kynslóða.

Ábyrgð okkar er raunverulega mikil gagnvart náunganum. En til þess að við gerum okkur betur grein fyrir henni þurfum við að gramsa í okkur sjálfum og vita hvar við höfum okkur sjálf. Ég er t.a.m. alveg á því þó ég eigi jafn erfitt með það og aðrir að við eigum ávallt og iðulega að vera í sannleikanum, hversu sár og erfiður sem hann kann að vera, og á það bæði við um störf okkar sem einkalíf, í því sambandi öðlumst við ávallt á endanum traust og virðingu og lendum síður í þversögnum.

Þá er mikill styrkleiki fólginn í því að þekkja vanmátt sinn, það að vera kosinn á þing þýðir t.d. ekki að þú þekkir öll svörin. Ég segi fyrir mig að í mínu starfi spyr ég miklu fleiri spurninga heldur en ég á svör við og þið heyrið það líka á þessari prédikun minni.

Það er reyndar með spurningarnar að þær vekja alltaf visst innsæi, leiða okkur inn í veröld sem við höfum ekki endilega kannað áður eins og góðvinur minn Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur komst svo vel að orði í einu samtala okkar um daginn, hann starfar með fólki í sárustu sorgaraðstæðum þess á degi hverjum, aðstæður sem í eðli sínu krefjast þess að fólk læri að þekkja betur sjálft sig.

Þetta eru aðstæður sem við kirkjunnar þjónar göngum reglulega inn í og á 15 ára prestsskapartíð minni hef ég oftar en ekki orðið var við einstaka fegurð brjótast fram í mannssálinni við slíkar aðstæður, fegurð sem er yfir allan óvinskap hafin.

Þar er vald kærleikans og heiðarleikans allsráðandi. Það er merkilegasta valdið. Það er eftirminnilegasta valdið, fólkið sem er ekki uppfullt af valdi en hefur samt svo mikil völd eins og Yeonmi Park fyrir framan yfirfullan hátíðarsal Háskólans og öll eyru galopin og hvert einasta orð meðtekið. Gætir þú gert það sama og hún, tekið hagsmuni annarra fram fyrir þína eigin? Það er sterkasta valdið.

Veikast er valdið er veldur ótta. Ógnarvald er í grunninn svo máttlaust og það verður það alltaf, það ber enginn virðingu fyrir því og vart sá sem hefur það sjálfur því hann þekkir ekki sjálfan sig jafnvel þótt hann hafi öllum stundum sjálfan sig að markmiði.

Það að menn á borð við Donald Trump, Pútín og Kim Jong-un skulu sitja að kjötkötlum snýr ekki aðeins að ábyrgð þeirra sjálfra heldur umfram allt alls heimsins og þess vegna eru þeir ekki einvörðungu undir niðri aðhlátursefni heldur heimurinn allur fyrir það það eitt að láta það viðgangast að þessir menn haldi í stjórnartauma. Með því að segja sögu sína afhjúpar Yeonmi Park það t.d. á svo skýran hátt og hún kallar um leið heiminn til ábyrgðar gagnvart þeim mannréttindabrotum og þeim hryllingi sem stjórnvöld vinna í heimalandi hennar og svo víða í veröldinni. Saga hennar er þörf dæmisaga fyrir okkur öll, alltaf.

Valdamesta táknmynd heimsins er nakinn og blóðugur líkami Jesú á krossinum á Golgatahæð, þar er ógnarvaldið ávarpað í eitt skipti fyrir öll og sömuleiðis afhjúpað í sinni skýrustu mynd, æstur múgurinn stendur hjá og horfir á. Og hver ber ábyrgð, er það þessi, eða þessi? Við erum alltaf að benda á einhverja aðra en okkur sjálf, við erum enn í dag að krossfesta fólk.

Krossmyndin af Jesú minnir á það að hann umbylti ríkjandi þankagangi, þar boðaði hann einlæga fórn og elsku öllum heiminum til handa en minnti sömuleiðis á ábyrgð heimsins og nýja sýn á valdið, hvernig við höfum áhrif til góðs, nýja heimssýn nýja lífssýn.

Og þessi nýja sýn segir ykkur m.a. að glata aldrei því sjónarmiði að við erum í þjónustu við fólkið og valdið felst í heiðarleika og í sannleika. Ef þú ert með einhverja hugsjón yfir höfuð þá skaltu ekki liggja á henni heldur minnast þess að í krafti persónu þinnar og í krafti embættis þíns hefur þú tækifæri til að koma henni á framfæri og þú hefur verið kosinn af fólkinu til þess.

Og veltu fyrir þér hvað það er sem mögulega gæti hindrað það að hugsjón þín fái brautargengi, ert þú þinn eigin óvinur í því samhengi, er sérhyggja að flækjast fyrir, ótti, ertu að þóknast ákveðnum hagsmunum? Eitt er víst að það er ekki hægt að þóknast öllu, þá verðum við á endanum engu neitt.

Í Gamla testamenti Biblíunnar er máttugt stef þessi þrenning, ekkjan, útlendingurinn og munaðarleysinginn. Það eru hinir undirokuðu, þau sem fara hallloka í samfélaginu. Þau eru fulltrúar ákveðinna málaflokka og við sem fæðumst inn í þessa veröld höfum skyldur við þau. Þetta er mörgum framandi þrenning og rödd hennar fær takmarkaðan hljómgrunn.

Í nútímasamhengi getum við séð fyrir okkur stöðu eldri borgara, flóttafólks og barna sem líða skort. Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, búum flóttafólki öruggt skjól án þess að óttast að þar séum við að hýsa hryðjuverkamenn og búum börnunum það öryggi að þau þurfi ekki að spyrja sig hvort þau fái skólatösku við upphaf skóla eða hvort til sé matur þegar þau koma heim að skóla loknum. Þá hljótum við að senda skýr skilaboð þess efnis að við líðum aldrei svívirðingar gagnvart börnum og viðurkennum ekki í neinum tilfellum slíkar misgjörðir.

Þetta eru viss grundvallaratriði og það þarf ekki að leita lengra til að finna þannig hugsjónum sínum mikilvægan farveg og hljómgrunn. Það er ábyrgð okkar að bregðast við þessum málaflokkum sem ég tek hér sem dæmi.

Og í því ljósi er forvitnilegt að velta enska orðinu „Responsibility” fyrir sér sem merkir ábyrgð en það er líka hægt að snúa því við og tala um „my ability to respond” eða hæfni mín til að bregðast við.

Það er á ábyrgð okkar að bregðast við knýjandi málum samfélagsins og heimsins og þau viðbrögð kalla á hæfni, ígrundun og þurfa ávallt og ætíð að einkennast af heiðarleika og sannleika, þannig komum við í raun og sanni vel fram bæði við vini sem óvini hvort sem þeir búa í okkur sjálfum eða einhverjum öðrum. Slík framkoma hindrar fremur fylkingamyndun en laðar fram samstöðu.

Bókin „Með lífið að veði. Leið norðurkóreskrar stúlku til frelsis” eftir títtnefnda Yeonmi Park sem nú stundar nám við Columbia háskólann í New York, endar á eftirfarandi orðum sem eru í senn hugvekjandi og hvetjandi að taka með sér inn á nýtt þing og í lífsins ólgusjó:

Hún segir: „Allir stuðningsmenn mínir um allan heim sem hvetjið mig og sendið mér góð skilaboð á samfélagsmiðlum: Ég get ekki nefnt ykkur öll á þessum fáu síðum en þið vitið hver þið eruð. Sérhvert bros, sérhver vináttuvottur, sérhvert tár sem þið fellduð með mér veitti mér kjark til að deila sögu sem ég hélt að ég gæti aldrei deilt með neinum. Þakka ykkur fyrir að trúa á mig. Ég hef upplifað tímabil þegar ég missti trúna á mannkynið en þið hafið hlustað, þið hafið látið ykkur þetta varða. Þannig, með því að standa saman, byrjum við að breyta heiminum.”

Jesús sagði: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim er ofsækja yður.

Guð blessi og varðveiti þing og þjóð og veröld alla í blíðu jafnt sem stríðu í Jesú nafni. Amen.