Hjónanámskeið á Akureyri 25. nóv. kl. 10-15

Hjónanámskeið sr. Þórhalls Heimissonar á Akureyri 25. nóvember
Undanfarna 21 vetur hefur mikill fjöldi para tekið þátt í hjónanámskeiðum á vegum sr. Þórhalls Heimissonar. Námskeiðin eru ætluð öllum sem eru í hjónabandi eða sambúð, ekki aðeins þeim sem eiga við vandamál að stríða, heldur hinum líka sem vilja styrkja samband sitt.
Námskeiðin sækir fólk af öllu landinu og hafa þau verið haldin á Selfossi, Eyrarbakka, Höfn í Hornafirði, Stykkishólmi, Akranesi, Akureyri, Hvammstanga, Ísafirði, Egilsstöðum, Borgarnesi, Keflavík, Seltjarnarnesi, margsinnis í Reykjavík, í Árnesi, Suðureyri við Súgandafjörð, Grindavík, Þorlákshöfn, Osló, Kaupmannahöfn og í Stokkhólmi, Gautaborg og Falun í Svíþjóð.
Námskeiðið var haldið þrisvar á Akureyri á liðnum vetri og var fullt í öll skiptin. Nú verður boðið upp á það laugardaginn 25. nóvember næstkomandi. Verður það haldið í safnaðarheimili Glerárkirkju frá 10.00 -15.00 með hádegishléi.
Á námskeiðunum er fjallað um samskipti foreldra og barna, stjórnun innan fjölskyldunnar og hvernig þessi atriði endurspeglast í hegðun barna og unglinga utan fjölskyldunnar. Farið er í gegnum helstu gildrur sambúðarinnar, hvernig fjölskyldumynstrum hægt er að festast í, fjallað um væntingar, vonir og vonbrigði þeirra sem tilheyra fjölskyldunni. En fyrst og fremst er fjallað um þær leiðir sem hægt er að fara til að komast út úr vítahring deilna og átaka í sambúð og hvernig styrkja má innviði fjölskyldunnar. Við skoðum líka ýmsar fjölskyldugerðir og veltum því fyrir okkur hvað hægt er að gera til þess að fyrirbyggja deilur og samskiptaörðugleika.
Auðvitað er ekki hægt að leysa öll mál á námskeiði sem þessu, enda forsendur þeirra sem taka þátt mjög mismunandi. Þau pör sem taka þátt geta þess vegna skráð sig í einkaviðtöl mánuði eftir að námskeiðinu lýkur, þyki þeim þörf þar á. Einnig er vísað til presta og annarra fagaðila er geta veitt nánari aðstoð, sé þess óskað.
Nánari upplýsingar um námskeiðin má fá hjá Þórhalli í tölvupósti thorhallur33@gmail.com og þar er líka skráð á námskeiðið.
Sjá facebook síðu námskeiðsins hér.