Stefanía Steinsdóttir, nýr prestur í Glerárkirkju, verður vígð á Hólahátíð

Nýr prestur var kjörinn við Glerárkirkju í júlí síðastliðnum. Sú sem varð fyrir valinu er Stefanía Guðlaug Steinsdóttir, sem nýlega lauk mag. theol. prófi frá Háskóla Íslands. Hún er Eyfirðingur að ætt og uppruna og hefur undanfarið starfað sem æskulýðsfulltrúi í Neskirkju í Reykjavík. Stefanía er 37 ára gömul, eiginkona hennar er Hrafnhildur Eyþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur og djákni. Stefanía kemur í stað sr. Jóns Ómars Gunnarssonar sem kjörinn var til embættis í Fella- og Hólakirkju í vor. Hún verður vígð til prestsembættis í Hóladómkirkju á Hólahátíð þann 13. ágúst næstkomandi kl. 14.00. Óskum við henni Guðs blessunar í störfum sínum.
Jón Ármann Gíslason, prófastur