Kveðjuræða sr. Jóns Ómars Gunnarssonar í Glerárkirkju 28. maí sl.

Predikun á 6. sunnudegi eftir Páska – 2017

Kveðjumessa í Glerárkirkju

Guðspjall: Jóh 17.9–17 Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Kæru vinir, orðin sem ég las fyrir okkur úr Jóhannesarguðspjalli, eru úr bæn Jesú fyrir lærisveinum sínum þá og nú. Bæn hans fyrir Pétri, Jóhannesi, Jakobi, Matteusi, Maríu og jafnframt fyrir okkur sem söfnumst saman hér í kirkjunni í dag í hans nafni til þess að eiga stund frammi fyrir Guði. Þessi bæn Jesú eru lokaorð kveðjuræðu hans, sem hann flutti á Skírdagskvöldi. Jesús vissi hvert stefndi, hann hafði vitað það lengi og við þekkjum þá sögu líka, frelsarinn var handtekinn, píndur og deyddur á krossi. Á skírdagskvöldi kvaddi hann lærisveina sína og sagði þeim að hann myndi deyja og rísa upp frá dauðum og stíga upp til himins. Hann sagði þeim að innan skamms yrði hann ekki lengur hjá þeim, en hann lofaði þeim að vera ávallt nálægur í heilögum anda sínum, sem yrði hjá þeim að eilífu.

Lærisveinarnir skildu ekki hvað Jesús átti við þegar hann sagði þeim hvað var fram undan. Þeir hafa örugglega verið mjög hræddir og kviðið því að missa Jesú, hann var vinur þeirra og hann hafði birt þeim Guð, hann elskaði þá og þeir elskuðu hann og máttu ekki til þess hugsa að lifa án hans hér á jörðu. Þeir voru hræddir og Jesús bað Guð að styrkja þá svo þær gætu tekist á við það sem þeir áttu í vændum, svo þeir gætu tekið við því mikilvæga hlutverki sem Jesús ætlaði að fela þeim. Hann vildi styrkja þá og efla svo þeir gætu óhræddir sagt góðu fréttirnar um hann og kærleika Guðs til allra manna í heimi sem er svo dásamlega fallegur, en jafnframt svo grimmur og ljótur.

Undanfarna daga höfum við verið minnt á þá erfiðu staðreynd að við lifum í hverfulum heimi, sem getur reynst grimmur og sársaukafullur staður. Lífið hér í veröld virðist stundum aðeins færa okkur sorg og sársauka, en lífið er líka fullt af gleði og hamingju og á stundum svo dásamlega fallegt. Lífið hér í heimi er allt í senn fallegt og erfitt, það er undursamlegt og sársaukafullt, þungbært en líka svo vonarríkt. Það er svolítið skrýtið að vera manneskja og reyna gleði og sorg.

Við höfum líka verið minnt á fegurð lífsins og vonina undanfarna daga – eftir að sprengjan sprakk í Manchester og fjöldi tónleikagesta hafði ekki í nein hús að venda opnuðu íbúar borgarinnar heimili sín fyrir tónleikagestum, leigubílstjórar á frívakt fóru af stað og sóttu ráðvillta tónleikagesti án þess að vilja greiðslu fyrir. Já kæru vinir mitt í grimmdinni og myrkrinu brýtur ljósið sér leið. Í heiminum tekst á ljós og myrkur og Jesús felur lærisveinum sínum að vera sporgöngumenn ljóssins, hann felur okkur að vera sporgöngumenn ljóssins, hann vissi að það væri erfitt hlutverk. Jesús sendir lærisveina af stað út í myrkrið til þess að bera áfram ljósið hans, eins og leigubílstjórarnir sem óku af stað inn í myrkur til þess að vera fjölda fólks í erfiðum aðstæðum ljós. Jesús sendir okkur af stað með ljósið hans, lífið hans, kraftinn hans og sigur hans.

Jesús biður Guð ekki um að taka lærisveinana úr heiminum, heldur að hann varðveiti þá: „Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ Eflaust hafa lærisveinarnir hugsað með sér: „það væri margfalt betra ef við mættum fara með þér Drottinn, taktu okkur með þér, hlífðu okkur við sársauka og erfiðleika.“ En því lofaði Kristur aldrei, hann biður föðurinn um að varðveita sína og hann lofar að vera þeim nálægur í heilögum anda að eilífu. Hann lofar að vera með okkur jafnt á stundum ljóss og myrkurs, sama hvað á dynur þá er hann með. „Sjá ég er með yður allt til enda veraldar“, segir Jesús.

Jesús kom í heiminn svo allir mættu vita hve heitt Guð elskar þennan heim og fólkið sem hér dvelur, í Jóhannesarguðspjalli segir: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Er það ekki skrýtið að jafnvel þó að heimurinn snúi aftur og aftur baki við Guði, þá þráir Guð ekkert annað en að allt fólk átti sig á þessu, átti sig á því að Guð er kærleikur, að Guð vill færa alla hluti til betri vegar, að Guð elskar. Kæru vinir, Jesús tók lærisveina sína ekki burt úr heiminum, heldur sendi hann þá af stað út í mannlífið til þess að bera sannleikanum vitni í heiminum sem Guð elskar svo heitt. Á sama hátt sendir Jesús okkur af stað út í nærsamfélag okkar með ljósið hans, til þess að við mættum bera Kristi og náðarverki hans í okkur og í heiminum vitni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen


Kæru vinir í dag kveð ég í Glerárkirkju, en það hefur verið mér mikill heiður og gleði að þjóna hér, að starfa með ykkur öllum. Ég kveð því með þakklæti og söknuði, ég á nefnilega eftir að sakna ykkar allra. Við fjölskyldan höfum notið þess að vera á Akureyri og verða hluti af samfélaginu og við förum héðan með góðar minningar og dýrmæta lífsreynslu í farteskinu. Takk fyrir okkur kæru vinir!