Bænahendur

Sagan sem hér fer á eftir er til í ýsmum útgáfum. Þar segir af fátækri fjölskyldu í Þýskalandi undir lok 15. aldar. Systkinin voru átján talsins og því ljóst að það var stórt verkefni að fæða hópinn og klæða og auraráð ekki mikil.
Tveir bræðranna í þessum hópi voru báðir mjög listfengir og langaði til að mennta sig í þeim fræðum og verða listamenn. En efnin voru lítil og því voru góð ráð dýr. En þeir dóu ekki ráðalausir, þeir ákváðu að gera samkomulag sín á milli. Þeir ákváðu að varpa hlutkesti, og sá sem tapaði myndi hefja störf í nærliggjandi grjótnámu og kosta listnám hins bróðurins. Þegar sá hefði lokið námi myndu þeir skipta um hlutverk.
Sá sem vann hlutkestið hét Albrecht Durer. Hann fór í fjögurra ára listnám meðan Albert bróðir hans þrælaði í dimmri námunni. Albrecht, sá sem fór í námið varð strax eftirtektarverður myndlistarmaður og fór fljótlega að hala inn góðar fúlgur á þeirra tíma mælikvarða. Og að því kom að hann sneri aftur heim og hugðist skipta um hlutverk við hinn bróðurinn. Það var haldin mikil veisla til heiðurs hinum unga listamanni. Og í lok hennar reis hann á fætur og hugðist skála fyrir Alberti, hinum fórnfúsa bróður sínum. Nú var komið að honum að fá að njóta sín. Allir litu í áttina til hans en í stað þess að sjá gleðisvip á andlitihans mátti þar aðeins greina tár á hvarmi og dapurlegt svipmót. Og skýringin á því lét ekki á sér standa. Eftir fjögurra ára erfiði í námunni voru fingur hans krepptir og kræklóttir, höfðu margoft brotnað og komin liðagigt í þá. Hann gat varla haldið á glasi og alls ekki á blýanti eða málningarpensli.

Bænahendur
Í þakkarskyni við þessa miklu fórn vildi Albrecht heiðra bróður sinn. Hann teiknaði mynd af lófum hans samanþrýstum, sem sé í bænarstellingum. Þessi mynd varð síðan heimsfræg og er til í ótal eftirprentunum . Hún heitir „bænahendur“ og hefur veitt án efa milljónum manna styrk, hughreystingu og hvatningu til bænar.
Já. enginn maður stendur einn og enginn getur þakkað einvörðungu sjálfum sér þann árangur sem næst. Allt hið góða og mikilvæga krefst mikilla fórna og erfiðis. Hagur eins er ætíð bundinn hag náungans.Við sem nú lifum megum án efa þakka þeim kynslóðum sem á undan hafa gengið og skapað okkur jákvæð lífsskilyrði í okkar landi. Vonandi megum við á sama hátt skapa góða möguleika til lífs og vaxtar fyrir þær kynslóðir sem munu taka við, nýta auðlindir með skynsömum hætti og stuðla að réttlátu þjóðfélagi.