Af heimsþingi Lúterska heimssambandsins í Namibíu

Lúterska heimssambandið heldur nú 12. heimsþing sitt, sem er að þessu sinni haldið í Windhoek, Namibíu, dagana 10.-16. maí 2017. Auk venjulegra fundarstarfa er því fagnað að 500 ár eru liðin frá upphafi siðbótarinnar.

Í tengslum við heimsþingið voru haldin svokölluð forþing (pre-assembly) þar sem ungmenni og konur réðu saman ráðum sínum til finna þar farveg  til þess að skýra enn betur sjónarmið sín og skerpa áherslur í baráttu sinni fyrir fullri þátttöku í starfi sambandsins og kirkjunni heima fyrir.

Þingið er haldi á 7 ára fresti og á hverju þingi er fjallað um þau mál sem efst eru á baugi innan lúterska sambandsins. Mikil guðfræðileg vinna og samtal liggur að baki þeirri stefnu sem þar er mörkuð.

Þó breytist ekki helsta hlutverk þess sem er að sameina krafta lúterskra kirkna um allan heim og vinna að hjálparstarfi og neyðaraðstoð.  Allt frá stofnun LWF 1947 hefur diakonia, hjálparstarf, verið eitt helsta verkefni sambandsins. Á síðasta ári fór um 92 % af öllu fé sem lúterska heimssambandið ráðstafar til hjálparstarfs þar sem um 2.6 milljónir manns, langflestir flóttamenn,  hafa þegið  neyðar- og þróunaraðstoð. Árið 2016 var sú fjárhæð 142 milljónir evra.

Yfirskrift heimsþingsins er Frelsuð af Guðs náð.

Undir titlarnir eru þrír:

  • Sköpunin – ekki til sölu
  • Manneskjan – ekki til sölu
  • Hjálpræðið – ekki til sölu.

LWF_Themes-web

145 aðildarkirkjur frá 98 löndum taka þátt, en 11 kirkjur sendu ekki fulltrúa að þessu sinni. Það liggur í hlutarins eðli að hver kirkja hefur sín sérkenni þrátt fyrir að þær séu allar lútherskar; sögulegar og menningarlegar ástæður liggja þar að baki og því er umræðan stöðugt áminning um að hlusta og skilja.

323 fulltrúar með kosninga- og tillögurétt eru á þinginu en mikill fjöldi áheyrnarfulltrúa er þar einnig, lætur nærri að 800 manns komi að þinginu á einn eða annan hátt.

Íslenska þjóðkirkjan á þrjú sæti og eru fulltrúar hennar þau séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, séra Sveinn Valgeirson og Magnea Sverrisdóttir djákni sem einnig er í stjórn Lúterska heimssambandsins. Þá er Þuríður Björg Árnadóttir Wiium, mag. theol. einn af fulltrúum ungmenna Norðurlandanna í hinni komandi nýju stjórn Lúterska heimssambandsins, sem kosin verður á þinginu.  Auk þeirra situr Bjarni Gíslason þingið á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar.

Á komandi dögum munu þau birta fréttir af heimsþinginu á vefsvæðinu www.tru.is og facebookfærslum. (Endilega deilið þessu til að vekja athygli á alþjóðatengslum kirkjunnar okkar).

Upplýsingar um heimsþingið og starf sambandsins má nálgast hér: www.lutheranworld.org.

Myndin tekin af Brenda Platero á Women Pre-Assembly. Sjá fleiri myndir hér:

Frétt frá Magneu Sverrisdóttur tekið af vef kirkjan.is