Vorhret, hugvekja úr Kveikjum sr. Bolla Péturs í Laufási

,,Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína:  Kona, nú er hann sonur þinn.  Síðan sagði hann við lærisveininn:  Nú er hún móðir þín. Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.”  (Jóhannesarguðspjall 19:26-27)

Vorhret

Vorið er tíminn hans. Þá fer hann í æðarvarpið, hlustar á náttúruna og þiggur gjafir hennar. Mismunandi tónar frá fuglaflórunni kalla fram margvíslegar tilfinningar. Honum líður hvað best þegar hann heyrir æðarfuglinn úa, en yfir gargar jafnframt veiðibjallan sem ógnar og truflar.

Þögult samkomulag ríkir milli bóndans og æðarinnar. Hann heldur frá vargnum, æðarkollan reytir sig, hann verndar, hún veitir. Hún hefur líka verið alfriðuð frá miðri 19. öld, einkum vegna dúntekjunnar.

Hann veður íklæddur vöðlum yfir spegilsléttan árósinn til þess að komast í varphólmana. Á þessum kyrrláta vordegi magnast upp náttúruhljóðin.  Vængjaþytur verður það skýr að honum finnst eins og hann þurfi að bera hönd fyrir höfuð sér.

Fyrir aftan hann flýgur ástfangið par. Kolla og bliki. Það þarf þó ekki að vera að þau séu nýbúin að kynnast. Æðarfuglinn er trúfastur fugl og getur átt sama maka í mörg ár og það á líka við um hreiðurstæði. Það er helst breyting á líkamsástandi fuglsins, er tengist m.a. veðurfari, sem verður til þess að hann skipti um hreiðurstað. Hann heldur iðulega tryggð við varpstað. Blikinn stendur vörð í nálægð meðan kollan liggur á eggjum og ungar út. Eftir það flýgur blikinn út á sjó og lætur móðurina um rest.

kveikjur_bollipetur

Höfundur Kveikja er Bolli Pétur Bollason. Kveikjurnar taka á mörgu og vekja lesandann vafalítið til umhugsunar um marga þætti í samfélaginu okkar. Þar er fjallað um siðferðileg álitamál, tilvistar- og tilgangsspurningar sem skiptir sérhvert okkar máli í lífsins ólgusjó og eru því í rauninni engum óviðkomandi. (Bókakynning Eymundsson)

Merkilegur fugl. Bóndinn gengur upp í fyrsta hólmann. Þar stingur hann niður spýtum með litríkum veifum. Hann flaggar fyrir fuglinum, fuglinn á það skilið, þau eru vinir, hann og æðurin. Æðarfuglinn er líka glysgjarn, sækir í sterka liti og á sama tíma verður vargurinn varari um sig, hann í það minnsta veltir fyrir sér þessum veifum.

Þegar hann hefur stungið niður fánastöngunum, kemur hann fyrir nokkrum dekkjum, því kollunni finnst greinilega mikið til þess koma að hafa gúmmídekk sem hreiðurumgjörð.

Fuglinn er sestur upp, fáeinar æðarkollur eru þegar byrjaðar að verpa. Við umganginn fljúga þær af hreiðrum, en fara aldrei langt. Ein neitar þó að fara, hann sest um stund niður við hlið hennar og hún hreyfir sig ekki.  Hann er ekki að bíða eftir því að hún fari af enda er hann ekki að hugsa um dúninn, varpið er nýhafið.

Þessi hefur einmitt valið sér sama staðinn aftur og hann sér að hún ber fuglamerki. Hann virðir hana fyrir sér, sér kyrran ósinn speglast í augum hennar, hún er þrjósk á svip en alveg róleg og lætur hvorki manneskju við hlið sér né gargandi veiðibjöllu, sveimandi fyrir ofan, trufla sig.

Af mörgum óvinum fuglsins er veðráttan hvað verst, það er torvelt að verjast henni. Bóndinn finnur að það er kul í loftinu þegar hann kveður varpið, veðurspáin er óhagstæð og það veldur honum áhyggjum.  Hann er viss um að fuglinn finni það á sér líka, en æðurin er ýmsu vön. Dýrin skynja það þegar óveður eða náttúruhamfarir eru framundan, frásagnir eru til af því þegar dýr hafa flúið til fjalla rétt áður en flóð hafa skollið á, meðan mannfólkið flatmagar á ströndum.

Það stóð sem stafur á bók, vorhret skall á. Við stofugluggann horfði hann í átt til varphólmanna og var hugsað til vængjaðra vina sinna. Það gerði hann líka þegar hann lagði höfuð á kodda og dró hlýju dúnsængina yfir sig. Í tvær vikur stóð hretið yfir og mikill snjór safnaðist á jörðina.

Um leið og færi gafst fór hann í varpið. Þar var ekki fallegt um að litast.  Allt var á kafi í snjó. Hann óð út í fyrsta hólmann og settist niður þar sem hann sat við hlið  æðarkollunnar fyrir um hálfum mánuði síðan. Hann gróf við fánastöngina, sem hann hafði sett við hliðina á henni, veifan hafði fokið af og þarna fann hann vinkonu sína dána á hreiðrinu. Eins og náttúran getur verið dásamleg, þá getur hún líka verið svo miskunnarlaus.

Bóndinn gekk heim á leið, sólin var byrjuð að bræða snjóinn og honum fannst hann heyra fuglinn úa úti við ströndina.  Það var huggun harmi gegn.

Umræðukveikjur:

  1. Finnst þér merkilegt að bera saman atferli dýra og manna?
  2. Móðureðlið er sterkt, hverjar eru skýringar þínar á því?