Sigursveigurinn og steinninn. Páskaprédikun Jóns Ármanns Gíslasonar, prófasts

Lofum þann sem lífið gefur / látum hljóma sigurbrag / Gleðjumst öll því Guð oss hefur / gefið bjartan páskadag / Dauðans kraftur aldrei aftur / unnið fær oss breyska menn / hallelúja hallelúja / nýjan heim vér sjáum senn.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska, í Jesú nafni.
Páskahret, er orð sem við þekkjum flest vel, og margir taka sér í munn á þessum tíma árs. Hér áður fyrr gat koma páskahrets og nákvæm tímasetning haft forspárgildi samkvæmt þjóðtrúnni um það, hvort sumarið yrði gott eða slæmt. Hret eru algeng síðla vetrar og á vorin en líklega lenda þau ekkert frekar á páskum en öðrum tímum. En það er algengt í veðráttunni á þessum tíma að það komi eins konar afturkippur og veturinn setjist að aftur, þegar virtist vera byrjað að vora fyrir alvöru. Þannig eru átök í veðurfarinu á þessum tíma, milli hlýja og kalda loftsins, suðlægra átta og norðlægra. Vorið og sumarið hefja ekki innreið sína nema að undangengnum nokkrum átökum í heimi náttúrunnar. Og ef til er það einmitt raunin með alla framþróun og breytingar að þær ganga ekki í gegn nema átök eða umsköpun eigi sér stað.
Páskaundrið sem við fögnum á þessari hátíð átti sér stað að undangengnum erfiðleikum og mikilli baráttu. Upprisan er lífskrafturinn sem sprengir dýflissu dauðans innan frá og brýst út í ljósið. Páskaundrið er ósigurinn sem breyttist í sigur, vonleysið sem varð að nýrri og kröftugri von, dauðinn sem breyttist í líf. Því að hinn látni reyndist lifandi, hann hvíldi ekki lengur í gröf sinni. Sá úthrópaði og fordæmdi reyndist vera sá sem var sannleikans megin, þrátt fyrir allt. Það sem hann hafði sagt og gert var þá kannski ekki marklaust hjóm eftir allt saman, heldur einmitt hið sanna og rétta. Hann hafði flutt okkur mörg mikilvæg sannindi um mannlegt líf og breytni. Og nú hafði hann sigrað dauðann. Þessu máttu hinir fáu vinir hans fagna á hinum fyrstu páskum. En vegna sorgar þeirra og ótta, og niðurlægingar undangenginna daga átti gleðin og fögnuðurinn erfitt með að komast að í huga þeirra. Og smátt og smátt breiddist boðskapurinn út: Jesús var upprisinn. Strax á fyrstu öld eftir Krist var það nokkuð útbreiddur siður hjá kristnum mönnum í Rómaveldi að vitja grafa ástvina og leggja á þær sigursveiga líkt og sigurvegarar í íþróttaleikum voru heiðraðir með. Og þetta gerðu menn vegna þess að þeir voru sannfærðir um að Jesús hefði sigrað dauðann. Upprisan var því ekki eins og einhver flökkusaga eða orðrómur sem gekk á meðal manna í einhvern tíma og koðnaði síðan niður, heldur er það staðreynd að lærisveinar Jesú urðu sannfærðir um að meistari þeirra hefði öðlast líf á ný, væri nú frjáls eins og vindurinn, reiðubúinn til þess að umskapa hjörtu þeirra og veita þeim nýja von og nýjan þrótt. Upprisukraftur Krists hafði reynst honum sterkari. Það eru margar frægar grafir og grafhýsi til í heiminum. Við vitum að pýramídarnir í Egyptalandi eru sagðir geyma líkamsleifar fornra konunga Egypta, við vitum af Grafhýsi Leníns, og í Westminster Abbey hvíla gengnir enskir aðalsmenn. Gröf Múhameðs er þekkt fyrir steinkistuna og beinin sem hún hefur að geyma, en gröf Krists er þekkt fyrir það að hún er tóm. Jesús er lifandi og nálægur okkur enn í dag.

Enter a captionAltaristafla í Raufarhafnarkirkju eftir Sveinunga Sveinungason eftir fyrirmynd málverks C. Blochs: „Huggunin“
Það fyrsta sem kom á óvart í frásögu guðspjallsins var það, að konurnar sáu að steininum hafði verið velt frá gröfinni. Og þegar vel er að gáð eru steinarnir margir, stórir og þungir í mannlífinu, sem geta lagst eins og bjarg á hjarta okkar og sál. Margir bera þungar byrðar vegna veikinda eða sorgar, eða annarra áfalla í mannlífinu.
Mörg hafa áhyggjur af ástandi heimsins og nú síðast ógnaröldu hryðjuverka og versnandi sambúð ólíkra trúarbragða og menningarheima. Við erum óttaslegin vegna ástandsins í Sýrlandi, Írak og fleiri löndum. Við hörmum nýlega árás á kristna menn í Egyptalandi þar sem 40 manns féllu. Sem og hryðjuverk í Stokkhólmi fyrir örfáum dögum. Biskup í lúthersku kirkjunni í Jórdaníu skrifaði á síðasta ári:
Við þjáumst vegna ástandsins í Mið-Austurlöndum og við erum sannarlega full af sorg. En við megum eiga von, vegna þess að Guð hefur þegar velt frá steininum þyngsta og erfiðasta, steininum frá gröfinni, sem táknaði vald syndar og dauða. Steininum sem stendur fyrir ofurvald hernaðarhyggju, mannhaturs og óréttlætis. Allt þetta hefur Guð sigrað.
Eitthvað á þessa leið skrifaði Munib Younan. Og Guð hefur ekki bara velt steininum þunga frá, heldur um leið tendrað glóð nýrrar vonar. Og ætíð hefur verið til fólk hér í heimi sem vill viðhalda og efla þessa glóð, sem er lífið í Kristi og trúin á hann. Það hefur þó aldrei veri sjálfsagt og alltaf kostað baráttu. Á þessum páskadegi verða það efalaust einhver í þessum heimi sem geta sagt: Ég hef mætt Jesú Kristi upprisnum, hann gengur mér við hlið. Fyrirgefandi kærleikur hans er minn nýi lífskraftur. Jesús Kristur er enn að verki með nýsköpun og gjöf nýrrar vonar og lífsþrótts. Þess vegna megum við eiga þá von er ekki bregst, hvorki í lífi né dauða. Jesús er sá er segir: Ég lifi og þér munuð lifa. Við þekkjum öll þá tilfinningu þegar eitthvað hvílir þungt á okkur. Og blessunarlega þekkjum við líka þá tilfinningu að finna til mikils léttis og gleði, þegar þungu fargi er af okkur létt. Fagnaðarerindi páskanna er af þeim toga. Guð er að segj að í eitt skipti fyrir öll að hið góða sé sterkara en hið illa þrátt fyrir allt, sannleikurinn muni á endanum alltaf sigra lygina og réttlætið verða óréttlætinu yfirsterkara. Og þess vegna hvetur upprisan okkur til jákvæðrar þátttöku í lífinu að við verðum sjálf farvegur þess góða og bjarta, leitumst við að endurnýja huga okkar og hjarta og gera það sem er gott og rétt. En það verða vissulega áföll og það geta komið slæm hret. En meginstefnan hefur verið mörkuð og frá henni verður ekki snúið. Og margir lifa sem betur fer upprisumegin við krossinn. Við eigum sem betur fer án efa allmarga einstaklinga hér í þessum söfnuði sem sannarlega vaka yfir hag náungans og koma honum til hjálpar með óeigingjörnum hætti. Það er alls ekki gefið mál og fyrir það má þakka.
Ágætu vinir ! Við megum treysta því að af afloknum löngum vetri komi vor. Þannig hefur það alltaf verið. Öll finnum við án efa fyrir nokkrum létti þegar vald vetrarins tekur að hörfa fyrir birtu og gróanda vorsins. Og við megum lifa með upprisuvon og bjarta trú að leiðarljósi. Það er gott að mega vakna snemma á páskadagsmorgni og taka á móti hinum gleðilega boðskap. Og við megum þakka lífsins gjöf hér og nú, sem er svo dýrmæt. Því að Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.
Já dýrð sé þér Guðs þrenning há,
lát þína elsku sigri ná,
í hjarta manns sem himnum á.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen
Takið postullegri blessun : Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum. Amen.