Persónur píslarsögunnar, 4. þáttur: Marta og María frá Betaníu hugleiða dauðann og lífið eilífa

Fjórði og síðast þáttur Persónur píslarsögunnar heitir: Marta og María frá Betaníu hugleiða dauðann og lífið eilífa. Þessi fjórði þáttur er samtal Mörtu og Maríu þar sem þær hugleiða dauðann og eilíft líf. Það eru þær Jóhanna Benný Hannesdóttir og Jóhanna Norðfjörð sem flytja minni Mörtu og Maríu. Lesari er Fjalar Freyr Einarsson. Þá er hér texti eftir mig við lag eftir Ragnhildi Ásgeirsdóttur sem syngur og spila og Íris Andrésdóttur syngur það með henni, Orð Guðs. Þær flytja líka lokasálminn eftir Tryggva Bjerkrheim í minni þýðingu: Ég sé í höndum þér heilög sár. Vil ég þakka öllum sem tóku þátt í að flytja þessa þætti.

Jesús í húsi Mörtu og Maríu, málverk eftir J. Vermeer.
4. þáttur
Marta og María frá Betaníu hugleiða dauðann og lífið eilífa
Hér má hlusta á þáttinn:
Við ætlum í dag að kynnast Mörtu og Maríu, og bróður þeirra Lasarusi. Þau bjuggu í Betaníu. Jesús var heimilisvinur þeirra og kom þar við á ferðum sínum. Síðustu daga sína átti hann með þeim og lærisveinum sínum í Betaníu áður en hann fór upp til Jerúsalem.
Sú saga sem er þekktust af þeim Mörtu og Maríu er um það að eitt er nauðsynlegt. Það er að sitja við fætur Drottins og hlusta á orðið. Við skulum íhuga þessa sögu sem ég hef mótað í eftirfarandi erindi. Lagið er eftir Ragnhildi Ásgeirsdóttur sem syngur og spila og Íris Andrésdóttur syngur það með henni:
ORÐ GUÐS, IÐRUN OG TRÚ
Orð Guðs talar til þess manns,
sem tekur stöðu syndarans,
við fætur Drottins dapur lýtur.
Enga málsbót á hann sér,
en inn í helgidóminn fer
að biðja um náð, og blessun hlýtur.Orð Guðs dæmir alla þá,
sem eigin gáfur meira dá,
en fyrirgefning Guðs í Kristi.
Hvernig var það með þann mann,
sem margt að syndaranum fann,
hann bölvun hlaut, en blessun missti.Orð Guðs boðar öllum náð,
sem aðeins finna hjálparráð
við fætur Drottins frá Guðs dómi.
Sæll er hver sem situr þar
og sér Guðs lamb, sem bölvun bar
en dauðann vann þess dýrðarljómi.Orðsins þjónar þiggja náð,
er þreytan sækir að þeim bráð,
við fætur Drottins fagna aftur.
Eitt er nauðsynlegt á leið,
að lúta Kristi, svo að neyð
hans verði okkur andans kraftur.Guðm. G.
Nokkrum vikum eftir að Lasarus hafði látist og verið grafinn öðru sinni komu þær systur, Marta og María, saman í húsinu í Betaníu. Oft hafði Jesús komið þar til vina sinna og notið gestrisni þeirra. María hafði farið til Jerúsalem og verið þar með söfnuðinum.
Eitt er nauðsynlegt
Marta: Sæl vertu María mín.
María: Sæl vertu, elsku systir.
Marta: Hvernig var í Jerúsalem? Gengur vel í söfnuðinum?
María: Já, við áttum góðar stundir við fætur Drottins. Þau báðu að heilsa þér, Jakob og Pétur. Kristniboðið gengur ágætlega, postularnir eru stöðugt á ferðinni, boðskapurinn dreifist víða. Páll og Lúkas og eru farnir í langa ferð um heimsveldið og Páll stefnir að því að komast til Rómar. María Magdalena bað fyrir góða kveðju. Fagnaðarerindið um Jesú er boðað eins og hann bauð okkur. Þú hefur kannski sérstaka ánægju af því að heyra af þjónustunni við þá fátæku í Jerúsalem. Það berst aðstoð víða að frá söfnuðunum í dreifingunni sem margir gefa af litlum efnum.
Marta: María mín, mannstu stundina, þegar þú sast við fætur Drottins og ég var á þönum.
María: Jú, auðvitað man ég.
Marta: Það eru mörg ár síðan en samt man ég þetta eins og það hafi gerst í gær. Þú sast þarna í horninu við fætur Jesú og lærisveinarnir voru í kringum ykkur.
María: Þú fyrirgefur mér hugsunarleysið en ég gat ekki annað en hlustað á Jesú þegar hann talaði. Hjartað það brann í brjósti mér. Ég tók ekki eftir neinu í kringum mig. Hann var mér allt þessa stund og allt annað skipti mig ekki máli. Ég horfði í augu hans og snerti fætur hans. Það rann upp fyrir mér eins og þú segir oft að hann er sonur Guðs. Við erum börn Guðs föður fyrir hann. Hann er lífið og hann hefur kennt okkur að þekkja Guð.
Marta: María mín, leyfðu mér að taka utan um þig og kyssa. Þú hefur kennt mér svo margt með þinni hljóðlátu trú. Ég er alltaf með einhver læti og bras og vesin. Auðvitað fannst mér vont að Jesús áminnti mig fyrir framan alla og mér sárnaði að allt sem ég var að erfiða væri ekki metið eins og mér fannst mikilvægast þessa stundina, það að sinna gestunum. En ég lærði þarna það sem Jesús vildi að við mætum mest, orðin sín. „Eitt er nauðsynlegt“, sagði hann við okkur. Það hef ég lært núna en þú kunnir. Ég hef oft velt þessu fyrir mér hvernig hann var við okkur og leyfði okkur að sitja við fætur sér til jafns við lærisveina sína. Hann var síður en svo að niðurlægja okkur þvert á móti að upphefja og reisa við. Nú sé ég að þjónusta mín er við hann og bundinn við hann einan. Ég er nú alltaf eitthvað að eins og þú veist.
María: Hugsaðu þér að hann er hér ennþá í anda sínum. Stundum þegar ég sit í horninu mínu, bænakróknum, þá er hann hjá mér. Ég sé hann horfa á mig og heyri orðin hans. Ég anda honum að mér og hann blæs anda sínum mér í brjóst. Ég er hans og hann er Guð minn. Svo tekur hann alla bresti mína á sig.
Marta: Já, bráðlæti mitt og önugheit hefur hann þurft að bera eins og þennan dag. En ef við játum syndir okkar þá er hann trúar og réttlátur og hreinsar okkur af allri synd. Þannig var hann og þannig leiddi hann okkur áfram á veginum, hreinsaði okkur, það er stundum óþægilegt, vont, en nauðsynlegt.
María: Samt sakna ég hans að hafa hann ekki hjá mér eins og þennan dag. Hann sagði einu sinni um lærisveinana að þeir gleddust meðan brúðguminn væri hjá þeim og gætu þá ekki verið að fasta. Þannig leið mér þá en stundum finnst mér erfitt að trúa núna. Það eru svo margir sem trúa í söfnuðinum fyrir vitnisburð okkar og leiðsögn án þess að hafa séð hann sjálfan. Ég sit oft langtímum saman í rökkrinu og þrái nærveru hans.
Marta: Veistu María, við eigum von á gestum í kvöld. María og Jóhannes ætla að koma hér við á leið norður.
María: Það verður ánægjulegt. Það er merkilegt þegar orðin hljóðna að þá erum við tvö hann og ég. Ég hlusta á hann og hann á mig. Ég sé hann og hann mig í rökkrinu í bænakróknum mínu. Ég skil við allt og hann einn verður mér allt í öllu.
Marta: Eigum við að fá okkur smá hressingu, María? Svo þarf ég að biðja þig að fara fyrir mig á markaðinn og kaupa í matinn.
María: Fyrirgefðu mér að ég brosi. Þú ert alltaf söm við þig í þjónustunni. Fáum okkur hressingu og svo skal ég fara á markaðinn.
Jesús reisir við Lasarus frá dauða til lífs
María kemur aftur af markaðingum: Ég hitti Símon líkþráa á torginu. Við töluðum góða stund um Lasarus bróðir. Hann talaði um kveðjustundina að hún hefði verið svo áhrifarík. Þá rifjaði hann upp svo margt minnistætt. Þeir voru vel kunnugir og höfðu starfað saman í söfnuðinum.
Marta: Æ, elsku bróðirinn okkar, svo fór hann á undan okkur, dó öðru sinni. En það er öðru vísi núna, eftir að Jesús huggaði okkur í fyrra skiptið. Mannstu hvað okkur leið illa þegar hann kom ekki um leið og við gerðum boð eftir honum: „Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur“. Æ, það var svo erfitt að horfa upp á Lasarus okkar kveljast. Ég varð svo reið.
María: Já, og ég svo sorgmædd. Von okkar til Jesú var vöknuð en ekki sterk. Vinátta hans var okkur svo mikils virði þá þegar. Við vissum að hann elskaði okkur og mikið voru þeir nánir Jesús og Lasarus. Þegar það dróst að hann kom þá lamaðist ég af sorg og þegar hann dó og við greftruðum hann þá hvolfdist yfir mig myrkur. Ég gekk um dauðans skugga dal þessa daga á meðan við biðum hans. Það dó eitthvað innra með mér með Lasarusi bróður.
Marta: Hvert augnablik er mér ljóslifandi ennþá. Manstu þegar við fréttum að Jesús væri að koma?
María: Já, ég var svo sorgmædd.
Marta: Og ég var svo reið við hann. Af hverju kom hann ekki fyrr, hugsaði ég. Og fólkið talaði þannig líka. Hefði hann komið fyrr hefði hann getað læknað hann. Hann hafði læknað svo marga sjúka. Svo sá ég Jesú koma með lærsveinahópnum. Og ég gekk hratt, ég hreinlega hljóp í sorgarklæðunum. Fólkið horfði á mig á götunni og á Jesú.
María: Oft hefur þú sagt mér frá samtali ykkar Jesú. Þú hlýtur að hafa verið undrandi eins og hann leiddi þig áfram og veitti þér von. Þá rann upp fyrir okkur að hann var Guðs sonur, sem hefur allt vald á himni og jörðu. Hann var miklu meira en heimilisvinur og góður maður. Hugsaðu þér.
Marta: Hann vissi hvað ég hugsaði áður en hann horfðist í augu við mig, enda hafði hann sagt að þetta gerðist til þess að gera hann dýrlegan, við, sem fylgdum honum skildum það ekki þá, en seinna skildum við og sáum.
Hann fór að tala um upprisuna. Og ég játaði því að ég tryði á upprisu á efsta degi, þá fengi ég að mæta bróður mínum aftur á landi lifenda. Svo stóð ég allt í einu frammi fyrir Guði sjálfum. Það var svo undarlegt þennan dag. Hann spurði mig hvort ég tryði á upprisu dauðra og ég játaði. En það var ekki einhver upprisa heldur snérist það um hann. Hann sagði: „Ég er upprisan og lífið!“ Og þarna játaðist ég honum: „Þú ert sonur Guðs“, sagði ég. Svo frétti ég seinna að Pétur hafði játað trúna á hann með sömu orðum. Það var í Sesareu Filippí. Mér kom ekki í hug að hann myndi gefa mér aftur Lasarus en ég játaði skilyrðislausa trú á hann Guðs son. Hann vakti von í brjósti mér sem ég hef geymt síðan. Jesús er Guðs sonur kominn til okkar.
Þá fór ég til að hitta þig, María mín.
María: Þú sagðir við mig: „Meistarinn er hér og vill finna þig“. Orðin náðu í gegnum sorgina og myrkrið sem hafði náð tökum á mér. Ég stóð upp og fór þangað sem Jesús var. Fólkið sem var hjá okkur til að hugga okkur sá mig fara og fylgdi mér, en það hélt að við værum að fara að gröfinni, til að gráta þar.
Þegar ég sá Jesú þá féll ég til fóta honum grátandi og sagði ásakandi: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn“. Ég fann samúð hans og augu hans grétu með okkur, en ég sá líka einhvern undarlegan glampa í augum hans, eins og hann sæi meira og dýpra en við sem grétum.
Þá spurði hann: „Hvar hafið þið lagt hann?“ Og honum var bent að koma og sjá. Þá táraðist Jesú og grét. Það var stund samúðar og sumir sögðu: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann“. En aðrir ásökuðu hann fyrir að hafa tafið svona lengi að koma til hjálpar, eins og ég hafði gert. Hann vissi að Guð myndi vera gerður dýrðlegur þennan dag.
Marta: Mér brá þegar við stóðum úti fyrir gröfinni, sem var hellir og steinn hafði verið settur fyrir grafarmunnann, og Jesús sagði: „Takið steininn frá!“
Mér fannst vissara að láta hann vita að Lasarus hafði verið í gröfinni í fjóra daga og það væri kominn nálykt af honum.
En hann snéri sér að mér og sagði: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir muntu sjá dýrð Guðs?“ Bænarorðin hans hljóma enn í huga mér: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ Svo hrópaði hann hátt: „Lasarus, kom út!“
Við sáum Lasarus bróðir koma vafinn líkblæjum á fótum og höndum og sveitadúk fyrir andliti. Hann gaf okkur aftur bróður okkar, til þess að við tryðum á hann og settum von okkar til hans. Nú vitum við að hann er upprisan og lífið. Það getur ekkert skilið okkur frá honum, hvorki dauði né líf, vegna þess að við erum hans. Nú vitum við að Lasarus bróðir er hjá honum í faðmi Guðs.
María: Drottinn er hér og kemur til okkar í sorginni og gengur með okkur í dauðanum. Huggun hans er ekki orðin tóm heldur hann sjálfur sem kemur til okkar til að vera með okkur. Hann er upprisan og lífið, eins og hann sagði.
Dagarnir í Betaníu fyrir krossfestinguna
Marta: Ég frétti það seinna hjá Tómasi postula, þessum sem efaðist um upprisu hans, að þeir voru uggandi að fara svo nálægt Jerúsalem, vegna þess að síðast þegar Jesús hafði verið þar á hátíð þá ætluðu menn að grýta hann vegna þess sem hann kenndi á musterissvæðinu. Mér er það minnistætt hvernig hann hennti gamni að misskilningi lærisveinanna, enda kom það oft fyrir að þeir skildu Jesú ekki. Það var ekki fyrr en þeir hugsuðu til baka eftir krossfestinguna og upprisuna að þeir skildu orð Jesú. Hann hafði til dæmis sagt að Lasarus væri sofnaður og að hann vildi fara að vekja hann. Þá höfðu lærisveinarnir sagt að það væri ágætt að væri sofnaður þá myndi honum batna. Hann tafði víst heila tvo daga eftir að hann fékk skilboðin frá okkur. Hann vissi alveg hvað hann var að gera. Það var eitthvað ógnarlegt í loftinu og lærisveinarnir drógu úr því að fara suður til Júdeu vegna þess að þeir óttuðust um líf Jesú og sitt. Jesús sagði þeim þá berum orðum: „Lasarus er dáinn og ykkar vegna fagna ég því að ég var þar ekki, til þess að þið skuluð trúa. En förum til hans.“ Þá sagði Tómas við hina lærisveinanna að þeir skyldu líka fara til að deyja með honum.
Ég gerði mér ekki grein fyrir þessari hættu sem var yfirvofandi fyrr en eftir að Jesús gaf okkur aftur Lasarus og andstæðingar Jesú risi upp og einsettu sér að drepa hann. Þá var stundin komin.
María: Ég veit ekki hvernig það gerðist en ég fékk sterkt hugboð um að Jesús myndi deyja. Ég frétt af ráðum æðstu prestanna og faríseanna. Þeir voru staðráðnir í því að taka Jesú af lífi. Öll táknin sem Jesús gerði urðu til þess að fólk fór að trúa á hann og fylgja honum eins og við. Andlegir leiðtogar þjóðarinnar voru logandi hræddir um að missa sín völd og að Rómverjarnir myndu brjóta niður musterið og herleiða þjóðina aftur. Kaífas á að hafa sagt og spáð vegna þess að hann var æðsti prestur það árið að það væri betra að einn maður deyi fyrir fólkið en að öll þjóðin tortímist. Jesús dó ekki aðeins fyrir þjóð sína heldur dó hann til að safna saman öllum börnum Guðs, eins og hann hafði sagt. Þegar hann yrði upp hafinn á krossinn myndi hann safna öllum til sín þegar stundin kæmi. Hann gerði þetta allt fyrir okkur vini sína, börn Guðs og ljóssins, svo að við fengjum að hvíla í faðmi hans, þekkja hann um eilífð.
Marta: Það var svo mikil eftirvænting í Jerúsalem fyrir páskahátíðina. Allir voru að bíða þess að Jesús myndi birtast. En um leið magnaðist spennan að leiðtogar þjóðarinnar ætluðu sér að ryðja Jesú úr vegi með öllum ráðum. Jesús hafði verið í þorpínu Efraím og farið huldu höfði en sex dögum fyrir hátíðina koma hann til okkar í Betaníu.
María: Og þú hafði boðið í mat af þinni alúð. Það var mikil kvöldmáltíð. Þar sat Lasarus með Jesú eins og þeir eru núna á himnum.
Marta: Þú komst mér á óvart þegar þú tókst fram alabastursbuðkinn með þessum dýrindis nardusarsmyrslum. Þau hafa kostað sitt.
María: Það var ekkert nógu gott fyrir Jesú, vininn minn. Hugboðið um dauða hans sótti svo á mig, ég vildi sýna honum virðingu, heilindi mín og trúnað við hann, Drottinn minn. Mér fannst ég vera að missa hann og að þetta væri kannski síðasta tækifærið sem ég hefði til að veita honum lotningu. Ég var við fætur Jesú, gekk nær honum, smurði höfuð hans með smyrslunum dýrmætu og þerraði með hári mínu. Ilmurinn breiddist um allt húsið. Ég og Drottinn vorum eitt þetta augnablik, þessi litla stund með Jesú, tengir mig við hann, alltaf. Það fær ekkert skilið mig frá honum, vininum mínum eilífa.
Marta: Þá var það svikarinn sem rauf heilögu þögnina með þessari uppgerðar athugasemd um bruðl þitt að það hefði mátt selja smyrslin fyrir þrjú hundruð denara og gefa fátækum. Hann var alltaf að hugsa um ávinning og seldi svo Drottinn í hendur böðlunum fyrir þrjátíu silfurpeninga sjálfur.
María: Við skulum ekki dæma hann of hart. Hann hefur fengið sinn dóm. Örvænting sálarinnar er þjáning sárust. Meistari okkar ávarpaði hann vin sinn en þetta varð að fara svona. Hann þekkir djúp örvæntingarinnar.
Jesús bað lærisveinana að láta mig í friði. Það stakk mig og lagðist þungt á mig að hann túlkaði tilbeiðslu mína svo að ég hefði smurt hann til greftrunardags síns. Hann staðfesti hugboð mitt eins og hann hafði oft gefið til kynna að hann ætti að deyja fyrir okkur öll. Öll mín sorg og þjáning tengdist honum þessa stund. Allt böl heimsins varð hans. Hann tók allt mitt á sig og bar það allt eins og páskalambið ber synd heimsins. Stundin var komin.
Marta: María mín, hann vissi hvað beið hans. Þegar hann talaði um að hann yrði upp hafinn þá var hann að tala um það sem beið hans. Þegar hann talaði um að stundin væri kominn þá var hann að tala um krossfestingu sína, að hann yrði upp hafinn, og að hann færi til föður síns og föður okkar.
Þegar andstæðingar hans sáu að fólkið vildi allt fylgja honum vegna táknsins sem hann hafði gert með því að reisa upp Lasarus okkar þá ákváðu þeir að ráða hann líka af dögum. Það var svo mikil illska og myrkur sem birtist í hatri þeirra á Jesú. Þeir ætluðu sér að ráða þá af dögum og ógnin var svo yfirþyrmandi. Við fundum það á vininum okkar, samt sá hann sigur í niðurlægingunni.
Jesús ljósið í myrkri sorgar og dauða
María: Ég hef oft hugsað um það hvernig táknið sem hann gerði fyrir okkur hjálpaði okkur þessar stundir. Við höfðum Lasarus hjá okkur en við óttuðumst um líf hans. Jesús hafði sagt að hann væri upprisan og lífið. Við tilbáðum Drottinn okkar og lofuðum hann. Þakklætið var svo mikið í brjósti okkar og traust til hans. Auðvitað var þetta allt óskiljanlegt fyrir okkur að hann varð að fara þessa leið í gegnum dauða til lífsins, Guðs sonurinn sjálfur, þannig er ráð Guðs. En nú skiljum við það og trúum á hann sem hefur gengið á undan okkur. Svo elskaði hann okkur að hann gaf líf sitt, hirðirinn góði, sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauði sína, vinurinn, sem yfirgefur okkur ekki. Kærleikur hans bregst ekki þó að allt annað bregðist í lífinu. Hann kenndi okkur það.
Marta: Samtal mitt við hann úti fyrir gröf Lasarusar gerði mig sterka að fylgja Jesú á píslargöngunni. Hann gerði það fyrir okkur. Þegar hann spurði mig um það hvort ég tryði þá sá ég hann einan, Guðs son, þá rann það upp fyrir mér, að allt er í hendi hans, bæði líf og dauði. Hann er upprisan og lífið. Hann var Guð kominn til okkar og við fengum að eiga hann fyrir ástvin. Við erum svo ríkar, María, að eiga hann að, hann bregst okkur aldrei. En þetta voru erfiðar stundir að horfa upp á vin okkar þjást.
María: Já, við fengum að vera með honum. Og hann er ennþá með okkur í anda sínum eins og hann lofaði okkur. Það stóðust öll orðin hans og bænir hans rættust eins og þegar hann vakti upp Lasarus okkar. Hann kallaði okkur vini sína. Við erum eitt með honum fyrir anda hans. Og við megum tala við Guð eins og hann gerði í hans nafni vegna þess að hann gaf okkur allt með sér. Við erum börn Guðs eins og hann er sonur Guðs vegna þess að það gaf hann okkur með sér þegar hann dó á krossinum og steig upp til föður síns og föður okkar. Það er svo gott að vera hans og mega vera Guðs barn, ljóssins barn. Þjáningin verður ekki eins sár, missirinn ekki samur, vegna þess að allt er í hendi hans, líf og dauði.
Ég sé fyrir mér stundirnar í bænakróknum mínum þegar ég sat við fætur hans. Hann elskaði okkur systkinin eins og hann elskaði alla menn og gaf líf sitt fyrir alla til þess að allir mættu vera Guðs börn sem vilja vera hans vinir.
Marta: María mín, þess vegna vitum við að Lasarus er í faðmi föðurins með vininum okkar góða. Nú er það huggun okkar og styrkur. Það er það eina nauðsynlega eins og hann kenndi okkur, það er eilífa lífið að þekkja hinn eina sanna Guð eins og vinurinn okkar Jesú.
Þar skiljum við Mörtu og Maríu eftir í hugleiðingum þeirra um dauðann og eilífa lífið. Við skulum hugleiða að lokum sálm eftri Tryggva Bjerkrheim í þýðingu minni. Lagið er eftir Egil Haugen. Þetta er áhrifarík hugleiðsla um sár Jesú sem hann bar fyrir okkur til að gefa okkur lífið með sér. Það eru þær Ragnhildur Ásgeirsdóttir og Íris Andrésdóttir sem flytja okkur lagið. Þar með enda þessar hugleiðignar um persónur píslarsögunnar og vitnisburð upprisunnar.
Ég sé í höndum þér heilög sár
Lag eftir Egil Haugen. Þýðing á texta eftir Tryggva Bjerkrheim:
Eg stend og ser pa en nagla hand (1959)Ég sé í höndum þér heilög sár,
sem hlaustu á krossins tré.
Mín vegna Drottinn í dauðann gekk
á dauðastund höfuð hné.Ég sé í höndum þér heilög sár,
mín heilsulind er þitt blóð,
sem gafst til frelsis mér glötuðum,
þú Guðs lamb, af náðarsjóð.Ég sé í höndum þér heilög sár,
af himnum þú komst til mín
að frelsa sekan og fallinn mann,
ég fagna – sé dýrðin þín.Ég mun í höndum þér heilög sár
á hinsta þeim degi sjá
er lít ég þig brátt á lífsins strönd
og leiða þig sjálfan má.Þýð. Guðm. Guðmundsson