Gefum þeim séns!

„Hvað mig dreymir um?
Að geta séð fyrir mér öðruvísi en með því að stela.
Ég vil ekki lenda í fangelsi.
Mig langar til að geta unnið sem rafvirki,“

 sagði Kenneth Buwenbo, 16 ára gamall drengur í samtali við Bjarna Gíslason framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar í mars síðastliðnum.

Kenneth tekur nú þátt í Kampalaverkefni Hjálparstarfsins og lærir að gera við tölvur. Hann gerir sér vonir um að komast í starfsþjálfun eftir námið. Það gefur honum möguleika á að láta draum sinn rætast. 

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun fyrir verkefni í þágu barna og ungmenna í Kampala höfuðborg Úganda en þangað liggur þungur straumur ungs fólks í von um betra líf. Því miður bíður flestra þeirra hins vegar atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum og mörg ungmenni leiðast út í smáglæpi og vændi til að lifa af.

Kampalaverkefni Hjálparstarfsins er í þremur fátækrahverfum í höfuðborginni og varir í 3 ár. Áætlaður heildarkostnaður er um 33 milljónir króna. Markhópurinn eru 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára en markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það geti nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

hk_uganda

Verkefnið er unnið í samstarfi við Lútherska heimssambandið og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) með góðum stuðningi utanríkisráðnuneytisins. UYDEL hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Þau reka verkmenntamiðstöðvar þar sem ungmennin  geta valið sér ýmis svið og öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð.

Hjálparstarfið hefur sent valgreiðslu í heimabanka landsmanna að upphæð 2.400 krónum en einnig er hægt að leggja inn á söfnunarreikning nr. 0334-26-050886, kt. 450670-0499 eða hringja í 907 2003 og greiða 2500 krónur með næsta símreikningi.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, í síma 615 5566, kristin@help.is