Verði mér eftir orði þínu

Boðunardagur Maríu
eftir sr. Guðmund Guðmundsson

Lofsöngur Maríu

Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.
En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.
(Lk. 1. 46-56)

Náð sé með yður og friður.

Nýtt líf kviknar. Lífið er okkur hulin ráðgáta en eitthvað gleður okkur óumræðilega þegar lífið kviknar. Fæstir blanda Guði inn í það undur lífsins. En ég held að flestum finnist það heillandi að horfa á kvikmyndir um upphaf lífsins. Það er ótrúlegt að sjá kvikmyndir af frjóvgun eggs og þroska fósturs í móðurkviði sem gerðar hafa verið. Með einhverjum hætti vekja þær djúpar tilfinningar og undrun yfir lífinu, Guði.

Guðspjallið um boðun Maríu tel ég vera svona heillandi lýsingu á undri lífsins og helgar það lífið allt. Syðsti glugginn í kórnum er af boðun Maríu, engillinn Gabríel boðar henni að hún nýtur náðar Guðs á sérstakan hátt, hún muni son ala, sem á að heita Jesús. Þeir eru þrír Maríu-gluggarnir í kórnum sem birta okkur Maríu í bláa möttlinum.

akk_1bodunmariu

Boðun Maríu, steindur gluggi í kór Akureyrarkirkju

Það eru tvær hliðar á boðskapnum um Maríu sem ég vil vekja athygli ykkar á í dag. Svo þið velkist ekki í vafi um það hvort ég sé Maríudýrkandi eða ekki tek ég fram að sjónarmið mín um Maríu tengjast annars vegar því að hún sem var af lágum stigum var kjörin til að fæða frelsarann, sérstaða hennar er í því fólgin að Guð upphefur smælingjana. Enginn ætti að líta smáum augum á sjálfan sig, vegna þess að við erum Guðs. Hitt er að María varð snemma í kristninni tákn fyrir kirkjuna, samfélag þeirra sem fylgja Kristi. Þess vegna fannst mér viðeigandi að við gengjum undir krosstákninu til guðsþjónustunnar í dag. María sem hélt á barni sínu í faðmi sínum fylgdi honum svo á veginum til Jerúsalem, píslargönguna og var undir krossinum föstudaginn langa, eins og kirkjan fylgir Kristi þá leið og tilbiður Drottinn sinn undir merki krossins.

En snúum okkur aftur að þessum tveim hliðum í boðskapnum um Maríu. Þessar tvær hliðar eru um mildina annars vegar og hins vegar um raunveruleikann.

1.

Einn af sálmunum um Maríu er á þessa leið: „Máríá, mild og há, móðir Guðs á jörð…“ María er mild, móðir, fegurð lífsins birtist okkur í henni. Lífið kviknar í móðurlífi hennar, orð engilsins fela í sér fyrirheit, að lífið sem bærist með henni breytir gangi sögunnar. Jesús merkir frelsari, hann á að ríkja, sonur hins hæsta, um eilífð. Sumir gætu nú maldaði í móinn og haldi því fram að þarna birtist staðalímynd kristninnar um konur, mild og góð skaltu vera kona! En þá les maður skakkt og eflaust hefur kirkjan gert það lengi. Vegna þess að það snýr líka að körlum, mildur og góður karl skaltu vera eins og hún María móðir Jesú og fyrirmynd þín, fyrirmynd allra trúaðra, það hlýtur að vera átt við bæði karla og konur.

2.

Hin hliðin er titrandi og viðkvæmur strengur. Þegar þessi boðskapur engilsins mætir veruleikanum eins og hann er gerist nokkuð merkilegt. Raunveruleikinn birtist okkur eins og hann er. Mér finnst það stórkostlegt að þessi frásögn hjá Lúkasi sem vafalaust er komin frá Maríu sjálfri með sínum ævintýraleg blæ og fegurð, frásagnargleði og fjöri, skuli varpa ljósi á raunveruleikann eins og hann er.

Í einum jólasálmi okkar eftir Brorson er þetta orðað svona: „Hin fegursta rósin er fundin … hún fannst meðal þyrnanna hörðu“. Ævintýraskáldið H. C. Anderssen skrifar söguna um Fegurstu rósina. Leitin að henni er víða meðal manna en sú fegursta finnst ekki fyrr en í Kristi. Og Brorson bendir okkur á að hún fannst meðal þyrnanna hörðu, mannkyni er líst þannig, þyrnirunninn stingur í augu þar til rósin birtist okkur, þá verður öll jurtin fögur. Með þessu myndmáli er það sagt sem skiptir mestu. María fæðir Jesú, rósina fögru, en María er ein af okkur, fulltrúi mannkynsins, kirkjan, sem tilbiður sitt eigið barn. Það gera náttúrulega foreldrar en þarna er Guð og maður að verða til í Maríu. Hugsunin er svo stór að hún rúmast illa í kolli okkar. Þess vegna er best að grípa í myndmálið eins og að hugsa sér að María faðmar Jesú eins föðmum við hann að okkur í trúnni. Og Guð faðmar mannkyn sitt að sér í barninu, frelsaranum, sem blessar. Upphefð okkar og heiður er fólgin í honum. Hann er fegursta rósin.

Í þessu myndmáli er líka skilgreining á kærleikanum. Kærleikurinn er ekki einhverjar rósrauðar tilfinningar heldur snýst um að áræða það að skuldbinda sig annarri manneskju, að elska aðra manneskju þó að það valdi sársauka. Maríu var sagt að hún yrði sverði nýst, hún myndi þjást. Það líf sem hún fæddi á jólanótt var aðeins byrjun á lífi sem fullkomnaðist á krossi og upprisu til eilífs lífs. Jesús með því að fæðast batt sig við mannkynið til að elska það, skilyrðislaust, alltaf. Þetta er skilgreining kristninnar á kærleikanum. Kærleikurinn er aðeins til í raunveruleikanum manna á milli. Nú tala ég eins og óskiljanlegur guðfræðingur eflaust. En eitt dæmi til skýringar. Það ætti enginn að gifta sig nema að gera ráð fyrir því að ævilangt samband valdi sársauka og þjáningu einhvern tíman á lífsleiðinni eða jafnvel öðru hvoru, en í trú og von á Guð sem gerir það sem er ómögulegt fyrir mönnum, er manni óhætt að lofa því að vera trúr og deila kjörum ævilangt. En ég myndi ekki ráðleggja nokkrum manni að gera það á eigin forsendum.

3.

Annað sem einkennir kærleikann er að í honum er engin þvingun. Guð kallar á fólk eins og Maríu en það er engin tilneyddur enda má víða sjá það á tómu bekkjunum í kirkjunni og það er fínt. Guð vill ekki að við sitjum hér tilneydd. Því síður að við göngum leið kærleikans án þess að vilja það enda er það ómögulegt.

María svaraði kalli Guðs með því að segja: „Verði mér eftir orði þínu“. Við sem kirkja tökum undir þau orð. Íhugum það, setjum okkur í hennar spor, finnum til með henni, þjáning Jesús verður sársauki okkar, þjáning okkar er krossinn hans. Við hlið Maríu stóð Jóhannes guðspjallamaður undir krossinum og eins er orðið okkur stoð og stytta í erfiðleikum okkar. Og þetta er ekki hvaða orð sem er heldur Guðs orð sem skapar það sem það nefnir.

Höfundur Alfa-námskeiðanna, Nicky Gumbel, lýsir því hvernig hann komst til trúar. Það gerðist með því að hjá honum vaknaði spurning um tilgang lífsins. Hann byrjaði að lesa í Nýja testamentinu. Las guðspjöllin og var langt kominn í Rómverjabréfið þegar það laukst upp fyrir honum að Guð var að kalla á hann, tala til hans. Þannig gerist þetta að Guðs orð talar. Það var mín reynsla einnig, sem unglingur var ég leitandi, ég var á kafi í austrænum fræðum, las allar bækur Gunnars Dal sem ég komst yfir. Einu sinni þegar ég var á bókasafninu með stafla af bókum benti bókasafnsvörðurinn mér á Biblíuna. Og það varð til þess að ég fór að skoða hana líka með alvarlegum afleiðingum. Ég varð prestur.

Gídeonfélagið vinnur mikið og gott starf eins og við heyrðum áðan með því að koma orðinu á framfæri. Og ég dáist að trú þeirra félaga að orðið eins og það kemur fyrir vinnur sitt verk.

Á boðunardegi Maríu, níu mánuðum fyrir jól, er okkur sagt að orðið, hugsun Guðs, varð maður. Það bjó á meðal okkar, segir í jólaguðspjalli Jóhannesar. Og sú stórkostlega hugsun hefur runnið upp fyrir Jóhannesi guðspjallamanni þegar hann stóð undir krossinum við hlið Maríu móður Jesú, og Jesús segir við hann: „þar er móðir þín“, og við móður sína: „þar er sonur þinn“, þá varð þetta stórkostlegasta mynd sem hugsast gat, hvernig orðið og kirkjan á saman, eins og hann skrifaði orðin niður og sagði frá þessu undri að Guð birtist okkur í Jesú, og María geymdi orðið í hjarta sínu, sagði, verði mér eftir orði þínu. Látum orð Guðs búa á meðal okkar.

Íhugun þetta þegar kórinn syngur fyrir okkur úr lofsöng Maríu sem sprettur upp af þessari gleði yfir undrinu mesta.

Dýrð sér Guði, föður og syni og heilögum anda.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s